Fótbolti

Gylfi um meiðsli Gomes: Það sagði enginn neitt inni í klefa

Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
Meiðsli Andre Gomes voru mikið áfall fyrir alla og ekki síst fyrir þá leikmenn sem á horfðu.
Meiðsli Andre Gomes voru mikið áfall fyrir alla og ekki síst fyrir þá leikmenn sem á horfðu. Getty/Robbie Jay Barratt
Gylfi Þór Sigurðsson hrósar lækni og læknateymi fyrir rétt og góð viðbrögð þegar André Gomes meiddist illa í leik Everton og Tottenham á dögunum.

André Gomes er nú bjartsýnn að geta spilað aftur á tímabilinu 2019-20 en í fyrstu óttuðust allir um að hann yrði mjög lengi frá.

„Þetta leit náttúrulega skelfilega út. Ég held að læknateymið og læknirinn hafi gert mjög vel. Ég held að þetta líti aðeins betur út en menn þorðu að vona. Auðvitað fóru tvö liðbönd hjá honum og ökklinn fór úr lið. Ég held að þetta verði fimm til sex mánuðir sem er mikið betra en maður hélt fyrst,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.

Gylfi var enn á varamannabekknum þegar André Gomes meiddist en kom svo inn fyrir Portúgalann. Hann segir að meiðslin hafi fengið hann til að hugsa hlutina aðeins öðruvísi.

„Ég var pirraður fyrir leikinn að vera ekki í byrjunarliðinu en svo gerist þetta og maður fer aðeins að hugsa um heilsuna og hvað maður er sáttur að vera heill heilsu og að geta æft og getað spilað,“ sagði Gylfi.

„Þetta hafði alveg áhrif á okkur inn í klefa eftir leikinn. Það sagði enginn neitt eiginlega og það er mjög skrítið að sjá þinn eigin leikmann og þinn góða vin vera borinn útaf og fluttur burtu í sjúkrabíl og vita síðan ekkert hvað er að fara gerast fyrir hann,“ sagði Gylfi.


Tengdar fréttir

Pochettino: Son er miður sín

Hrikaleg meiðsli Andre Gomes í leik Everton og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld tóku mikið á Son-Heung min.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×