Fótbolti

Kallaður „Helvítið“ og átti einu sinni heimsmet í hávaða

Óskar Ófeigur Jónsson í Istanbul skrifar
Það verða til rosaleg læti á Türk Telekom leikvanginum.
Það verða til rosaleg læti á Türk Telekom leikvanginum. Getty/Ulrik Pedersen
Íslensku landsliðsmennirnir hafa örugglega aldrei spilað áður við jafnmikla öfga aðstæður og þegar þeir mæta Tyrkjum í kvöld í leik upp á líf eða dauða í undankeppni EM 2020.

Türk Telekom leikvangurinn eða Ali Sami Yen Spor Kompleksi er nefnilega enginn venjulegur heimavöllur. Því fá íslensku strákarnir að kynnast á eigin skinni og eigin hljóðhimnum á fimmtudagskvöldið.

Þessi heimavöllur Galatasaray er ekki bara innan við tíu ára gamall og tekur yfir 52 þúsund manns í sæti. Hann hefur einnig átt sæti í heimsmetabók Guinness þótt að hann eigi ekki heimsmetið lengur.

Í marsmánuði árið 2011, þegar leikvangurinn var glænýr, mældist hávaðinn á vellinum í 131.76 desíbelum sem tryggði sér með því sess í heimsmetabók Guinness því aldrei áður hafði mælst meiri hávaði á íþróttaleikvangi.

Tvö bandarísk NFL-lið hafa síðar tekið metið af Tyrkjunum, fyrst féll það á CenturyLink Field, heimavelli Seattle Seahawks og svo á Arrowhead Stadium, heimavelli Kansas City Chiefs. Þessir bandarísku vellir hafa skipst á að bæta metið en Arrowhead á það núna eftir að hávaðinn á leik Kansas City Chief liðsins í september 2014 mældist 142.2 desíbel.

Það er ekki síst vegna hávaðans sem Türk Telekom Stadium hefur verið kallaður „Helvítið" en það á líka rætur sínar að rekja til gamla heimavallar Galatasaray, sem var rifinn eftir að sá nýi var byggður.

Gamli völlurinn Ali Sami Yen var við það hrynja undir það síðasta. Hljóðhimnurnar voru því ekki aðeins í hættu heldur einnig áhorfendur. Galatasaray ákvað því að selja dýrmætt landsvæði sem Ali Sami Yen stóð á og staðinn var nýr völlur byggður norðar í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×