Erlent

Morales biðlar til Sameinuðu þjóðanna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Morales, sem hefur sakað herinn um valdarán, sagði að þar sem þingið hefur ekki formlega staðfest né hafnað afsögn hans sé hann enn réttmætur forseti landsins.
Morales, sem hefur sakað herinn um valdarán, sagði að þar sem þingið hefur ekki formlega staðfest né hafnað afsögn hans sé hann enn réttmætur forseti landsins. Vísir/AP
Evo Morales kallar eftir því að Sameinuðu þjóðirnar og kaþólska kirkjan miðli málum í Bólivíu eftir að her landsins knúði hann til þess að segja af sér sem forseti um síðustu helgi.

Stjórnarandstæðingar höfðu mótmælt af hörku dagana fyrir afsögn Morales og sökuðu hann um að hafa stolið sigrinum í nýliðnum forsetakosningum. Einnig gagnrýnt ákvörðun hæstaréttar um að heimila framboðið þrátt fyrir að tillaga um að afnema hámarksfjölda kjörtímabila var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Um helgina tóku bæði lögregla og herinn afstöðu með stjórnarandstöðunni og tilkynnti þessi fyrsti forseti Bólivíu af frumbyggjaættum því um afsögn sína eftir þrettán ár á valdastóli.

Deilunni er hins vegar hvergi nærri lokið þrátt fyrir að Jeanine Anez hafi lýst því yfir að hún hafi tekið við sem starfandi forseti. Stuðningsmenn sósíalistans Morales hafa safnast saman úti á götum bólivískra borga og veifað fána innfæddra.

Morales sagðist í nótt viss um að Sameinuðu þjóðirnar gætu miðlað málum. Forsetinn, sem hefur sakað herinn um valdarán, sagði að þar sem þingið hefur ekki formlega staðfest né hafnað afsögn hans sé hann enn réttmætur forseti landsins.

„Við munum endurreisa lýðræðið. Það verður þolinmæðisvinna sem krefst friðsamlegrar baráttu. Við verðum að koma á friði í Bólivíu. Ef ég verð að gagni í þeirri baráttu mun ég taka þátt, en án vopna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×