Fótbolti

Kári fór fram úr formanninum í síðasta leik

Óskar Ófeigur Jónsson í Chisinau skrifar
Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson vinna hér vel saman og loka á fyrirliða Tyrkja, Burak Yilmaz.
Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson vinna hér vel saman og loka á fyrirliða Tyrkja, Burak Yilmaz. Getty/ Veli Gurgah
Kári Árnason situr nú einn í áttunda sæti yfir leikjahæstu landsliðsmenn Íslands frá upphafi.

Miðvörðurinn Kári Árnason lék sinn 81. landsleik á móti Tyrkjum í Istanbul og fór þar með fram úr Guðna Bergssyni, formanni KSÍ.

Guðni lék 80 landsleiki frá 1984 til 2003. Síðasti landsleikur Guðna var 11. júní 2003 í 3-0 sigri á Litháen í Kaunas. Guðni hafði bætt þremur leikjum við landsleikjafjölda sinn þetta vor en hann lék enga landsleiki á árunum 1998 til 2002.

Kári lék sinn fyrsta A-landsleik 30. mars 2005 þegar hann var leikmaður sænska liðsin Djurgården. Hann lék 16 landsleiki frá 2005 til 2007 en síðan aðeins einn landsleik frá 2008 til 2011. Kári kom aftur inn í A-landsliðið árið 2012 og hefur verið lykilmaður síðan.

Fjórir íslenskir miðverðir hafa náð því að spila 80 landsleiki fyrir Íslands hönd en þeir eru Ragnar Sigurðsson (93), Hermann Hreiðarsson (89), Kári Árnason (81) og Guðni Bergsson (80). Hermann og Guðni spila ekki fleiri leiki en Ragnar og Kári eiga vonandi eftir að bæta einhverjum leikjum við.

Kári Árnason hefur leikið fjóra síðustu landsleiki sem leikmaður Víkings og ef hann spilar sinn fimmta leik í kvöld þá hafa aðeins þrír leikmenn spilað fleiri landsleiki sem Víkingar. Hinir eru Guðgeir Leifsson (15 landsleikir sem Víkingur), Ómar Torfason (15) og  Sigurlás Þorleifsson (7).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×