Innlent

Landlæknir boðar aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. Fréttablaðið/Anton Brink
Heildarnotkun sýklalyfja á Íslandi minnkaði um 5 prósent milli áranna 2017 og 2018 en um 7 prósent hjá börnum yngri en fimm ára. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sóttvarnalæknis.

Í gær hófst fimmta alþjóðlega vitundarvika Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um skynsamlega notkun sýklalyfja. „Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sem og aðrar alþjóðlegar stofnanir hafa lýst því yfir, að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyninu í dag. Þó að sýklalyfjaónæmi sé minna á Íslandi en í mörgum öðrum löndum þá er mikilvægt að grípa hérlendis nú þegar til aðgerða sem hefta frekari útbreiðslu,“ segir á vef Landlæknis.

Árið 2017 hafi starfshópur heilbrigðisráðherra skilað tíu tillögum að því hvernig best sé að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hérlendis. Íslensk stjórnvöld hafi nú í febrúar lýst yfir að tillögurnar mörkuðu opinbera stefnu.

Þá segir að mikilvægt sé að almenningur hafi góðan skilning á réttri notkun sýklalyfja og hættunni sem af sýklalyfjaónæmi stafar. Almennt hreinlæti, handþvottur og sýkingavarnir gegni einnig lykilhlutverki í baráttunni og að útbúin hafi verið fræðslumyndbönd.

„Á næstunni verður gripið til margvíslegra aðgerða hér á landi til að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis auk þeirra aðgerða sem að ofan er lýst. Til þess að árangur náist í þessari baráttu er nauðsynlegt að stjórnvöld, stofnanir, heilbrigðisstarfsmenn og almenningur vinni saman að nauðsynlegum aðgerðum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×