Erlent

Mót­mæltu heim­sókn Spánar­konungs til Kata­lóníu

Atli Ísleifsson skrifar
Myndir af Filippusi Spánarkonungi voru brenndar á götum Barcelona í gærkvöldi.
Myndir af Filippusi Spánarkonungi voru brenndar á götum Barcelona í gærkvöldi. AP
Þúsundir úr röðum aðskilnaðarsinna í Katalóníu mótmæltu heimsókn Filipusar Spánarkonungs til Barcelona í gærkvöldi.

Kveiktur var eldur á fjölfarinni umferðargötu þar sem myndir af konungnum voru brenndar. Barið var á potta og pönnur og fólkið hrópaði slagorð á borð við „Katalónía hefur engan kóng“.

Lítið lát hefur verið á mótmælunum í Katalóníu í kjölfarið á því að leiðtogar aðskilnaðarinna voru dæmdir í fangelsi á dögunum. Aðeins eru nokkrir dagar í þingkosningar á Spáni, kosningar númer tvö á þessu ári.

Filippus konungur heimsótti Barcelona í gær ásamt drottningu og tveimur dætrum en þau tóku þátt í verðlaunaafhendingu fyrir unga frumkvöðla, vísindamenn og listamenn.

Krónprinsessan Leónóra, sem er fjórtán ára gömul hélt ræðu á hátíðnni þar sem hún lagði áherslu á sterkt samband Spánar og Katalóníu.

Leonóra krónprinsessa og Filippus Spánarkonungur.EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×