Fótbolti

Håland langt á undan Messi og Ronaldo og verðmiðinn hækkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Håland hefur verið magnaður í Meistaradeildinni í vetur. Hér fagnar hann sjöunda markinu sínu í gær.
Erling Braut Håland hefur verið magnaður í Meistaradeildinni í vetur. Hér fagnar hann sjöunda markinu sínu í gær. Getty/ Francesco Pecoraro
Norðmaðurinn Erling Braut Håland hélt áfram að skrifa söguna í Meistaradeildinni í gær þegar hann skoraði fyrir Red Bull Salzburg í fjórða Meistaradeildarleiknum í röð.

Håland skoraði strax á elleftu mínútu í gær í 1-1 jafntefli Red Bull Salzburg við Napoli á Ítalíu.





Håland hefur nú skorað sjö mörk í fyrstu fjórum Meistaradeildarleikjum sínum en því hefur enginn annar leikmaður náð í sögu keppninnar.





Þrír aðrir hafa náð að skora í fjórum fyrstu Meistaradeildarleikjum sínum en það eru Alessandro Del Piero, Diego Costa og Ze Carlos. Enginn hefur hins vegar ná að skora meira en fimm mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum.

Håland skoraði þrennu í fyrsta leiknum á móti Genk, eitt mark á móti Liverpool á Anfield, tvö mörk í heimaleiknum á móti Napoli og loks eitt mark í útileiknum við ítalska félagið í gær.

Hann hefur nú skorað sjö mörk á fyrstu 272 mínútunum sínum í Meistaradeildinni eða mark á 39 mínútna fresti.





Það er ljóst að Erling Braut Håland er kominn langt á undan bæði Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hvað varðar markaskorun í Meistaradeildinni á sama tíma.

Það tók Messi átján leiki í Meistaradeildinni að ná sjö mörkum og Ronaldo skoraði ekki sitt sjöunda Meistaradeildarmark fyrr en í leik númer 33.  

Þetta var hins vegar ekki eina metið sem Erling Braut Håland sló í gær því hann bætti einnig met þeirra Kylian Mbappé og Raúl. Enginn táningur hefur skorað fleiri mörk á einu Meistaradeildartímabili en Norðmaðurinn. Metið var sex mörk hjá þeim Mbappé og Raúl.









Það þarf því ekki að koma mörgum á óvart að verðmiðinn á Erling Braut Håland hækki með hverju marki hans í Meistaradeildinni. Hann hefur verið orðaður við mörg stórlið Evrópu, bæði á Englandi og á Spáni, og það er ekkert skrýtið. Framganga hans á þessu tímabili lofar svo sannarlega góðu fyrir framhaldið hjá þessum nítján ára strák.

Ítalska blaðið Tuttosport slær því upp að Red Bull Salzburg sé nú búið að setja hundrað milljón evra verðmiða á Håland. Samkvæmt fréttinni er búist við kapphlaupi um strákinn á milli Real Madrid og Manchester United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×