Sport

Kristinn sló 13 ára Íslandsmet Arnar og Dadó og Jóhanna Elín tryggðu sig inn á sitt fyrsta EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Þórarinsson sló þrettán ára Íslandsmet í fyrsta sundi sínu á ÍM 25.
Kristinn Þórarinsson sló þrettán ára Íslandsmet í fyrsta sundi sínu á ÍM 25. Getty/Andy Astfalck
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Dadó Fenrir Jasminuson úr SH náðu bæði sínu fyrsta EM lágmarki í morgun í undanrásum á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug sem fer fram í Ásvallarlaug. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Kristinn Þórarinsson náðu líka EM lágmarki í undanrásum í dag.

Íslandsmeistaramótið í 25 metra laug hófst í dag í Ásvallalaug í Hafnarfirði en það er í samstarfi við Sundfélag Hafnarfjarðar og Íþróttasamband fatlaðra.

Mótið í ár byrjaði með látum því Kristinn Þórarinsson úr ÍBR gerði sér lítið fyrir og bætti Íslandsmetið í 100 metra fjórsundi og náði hann í leiðinni lágmarki á EM í 25 metra laug sem fram fer í Glasgow í næsta mánuði. Kristinn synti á 53,85 sekúndum en gamla metið var 54,30 sekúndur og var í eigu Arnar Arnarsonar frá því 2006.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH náði líka lágmarki á EM í 25 metra laug sem fram fer í Glasgow í Skotlandi dagana 4. til 8. desember næstkomandi. Ingibjörg náði lágmarkinu í undanrásum í 50 metra skriðsundi þegar hún synti á tímanum 28,05 sekúndum en lágmarkið er 28,06 sekúndur.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Dadó Fenrir Jasminuson úr SH náðu bæði sínu fyrsta EM lágmarki í 50m skriðsundi í undanrásum. Jóhanna Elín synti á 25,43 sekúndum en lágmarkið er 25,53 sekúndur. Dadó Fenrir synti á 22,32 sekúndum en lágmarkið karlamegin er 22,47 sekúndur.

Þetta þýðir að nú eru komnir sjö íslenskir keppendur á mótið en það eru:

Anton Sveinn McKee

Snæfríður Sól Jórunnardóttir

Eygló Ósk Gústafsdóttir

Kristinn Þórarinsson

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir

Dadó Fenrir Jasminuson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×