Búið er að selja nær helming aflaheimilda útgerðarfyrirtækja í Grímsey frá eyjunni. Sjávarútvegur hefur verið helsta atvinnugreinin í eyjunni og því hafa íbúar áhyggur af stöðu mála.
Stefnt er að því að funda með hverri einustu fjölskyldu sem á lögheimili í Grímsey og er það langt komið. Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi á Akureyri, á sæti í verkefnastjórn Brothættra byggða vegna Grímseyjar og hefur setið fundina.
„Við erum að leita eftir viðhorfum þeirra til búsetu í Grímsey, hvað þurfi til að fólk sé þá tilbúið að vera þarna áfram og hvaða aðgerða þarf að grípa í raun og veru til eða hvaða tækifæri þau sjá,“ segir Gunnar.
Hann segir alla gera sér grein fyrir því að staðan sé mjög viðkvæm.
„Þar sem að stærsti hluti kvótans hefur í raun og veru verið seldur og þá sjá það held ég allir að byggð í Grímsey hlýtur að byggjast í kringum sjávarútveg. Þetta er mjög viðkvæmt og fólk hefur áhyggjur,“ segir Gunnar.
Sá möguleiki sé fyrir hendi að heilsársbyggð leggist af.
„Þetta er mikil breyting ef að við stöndum hugsanlega frammi fyrir þeim valkosti á einhverjum tímapunkti að þurfa að segja að þarna sé hugsanlega öllu lokið sem við skulum segja byggð allt árið“
Það er raunveruleg hætta á því?
„Það veltur á því hver niðurstaðan verður úr þessum samtölum og hvaða tækifæri við höfum og hvað fólk er þá tilbúið að gera þegar við förum að ræða við fólk eftir þessa fundi.“