Erlent

Hljóp undan miða­vörðum á teinunum í París

Atli Ísleifsson skrifar
Þessi vildi alls ekki borga evrurnar tvær sem kostar í lestina.
Þessi vildi alls ekki borga evrurnar tvær sem kostar í lestina.
Fjöldi Parísarbúa varð vitni af því á mánudag að maður sem hafði svindlað sér í neðanjarðarlestina reyndi að komast undan miðavörðum með því að hlaupa á teinunum á lestarstöðinni Miromesnil.

Myndbönd voru birt á samfélagsmiðlunum þar sem mátti sjá manninn á harðahlaupum á teinunum, en allir sem eru nærri teinunum eiga á hættu að verða fyrir raflosti.

Stöðva þurfti fjölda lesta vegna athæfis mannsins og þurfti að taka strauminn af sex neðanjarðarlestarstöðvum í um hálftíma. Lestarleiðir 9 og 13 stoppa á Miromesnil-stöðinni.

Á myndböndum má sjá manninn þar sem hann hleypur í átt að göngunum á meðan miðaverðir hlaupa á eftir honum á lestarpallinum. Vörðum tókst að lokum að hafa hendur í hári mannsins.

Ferðist fólk miðalaust í neðanjarðarlestakerfi Parísarborgar á það á hættu að fá fimmtíu evra sekt hið minnsta, eða um 7.000 króna sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×