Skoðun

Að saga íslenskan reynivið

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Í liðinni viku hlutu níu katalónskir stjórnmálamenn þunga dóma fyrir að standa að hroðvirknislegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Það skýtur því skökku við að gamall forseti Katalóníuhéraðs, fjárglæpamaðurinn Jordi Pujol, gangi enn þá laus.

Jordi var nokkuð vinsæll uns tengdadóttirin lenti upp á kant við son hans og fór í framhaldi af því til lögreglunnar og sagði frá því að Pujol-fjölskyldan hefði stundað það í einn og hálfan áratug að flytja ferðatöskur fullar af peningum til Andorra.

Þá varð ljóst að fjölskyldan er eitt fjárglæpagengi sem hefur fengið mest af sínum auði með mútum og alls konar þóknunum. Telja yfirvöld að fjölskyldan hafi falið yfir 400 milljarða króna í skattaparadísum.

Jordi hefur gefið þá skýringu að auðurinn sé arfur frá afa hans. Tekið skal fram að hann er ekki barnabarn Jóakims andar. Einn sonur Jordis hefur mátt gista nokkra daga í fangelsi. Sá gamli er hins vegar enn þá frjáls, nokkuð sem ég skildi ekki uns Jordi lét hafa eftir sér að yfirvöld ættu að hætta að vesenast í sér, því ef menn ætla að saga stóra grein endar það með því að tréð sjálft fellur. Gaf hann síðan í skyn að hann gæti tekið upp úr pokanum óhreint mjöl eftir gamla kónginn og aragrúa af gömlum ráðherrum.

Hann hótaði því að verða þessi fræga þúfa sem velt gæti brothættum Spáni. Yfirvöld fylltust fiðringi og draga nú lappirnar. Nú er Ísland á gráum lista vegna linkindar við þá sem liggja á svipuðu lúalagi.

Skyldi það vera af sama fiðringi enda varla hættulaust að saga greinar af íslenska reyniviðnum?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×