Fótbolti

Ronaldo ánægður með Sarri og segir Juventus-liðið betra undir hans stjórn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ronaldo og Sarri ræða saman.
Ronaldo og Sarri ræða saman. vísir/getty
Cristiano Ronaldo, einn besti fótboltamaður heims og leikmaður Juventus, segir að Juventus sé betra lið undir stjórn Maurizio Sarri og spili skemmtilegri fótbolta.

Sarri tók við Juventus í sumar er Massimiliano Allegri yfirgaf Tórínó-liðið og er Juventus á toppi ítölsku deildarinnar.

Í dag mæta þeir svo Lokamotiv Moskvu í Meistaradeildinni.

„Mér líkar vel við hvernig Sarri vill spila og við erum að skapa fleiri færi,“ sagði Ronaldo á blaðamannafundi fyrir Meistaradeildarleik kvöldsins.







„Mér finnst liðið sé að verða betra. Við erum að fá meiri sjálfstraust og við erum að spila öðruvísi fótbolta og meiri sóknarbolta. Ég er ánægður með þessar breytingar.“

Ronaldo skoraði sitt 700. mark í fótboltanum á dögunum en hann hugsar ekki mikið um það.

„Það er fortíðin. Ég vil horfa fram veginn og ná nýjum hæðum. Ég vil spila og hjálpa liðinu að vinna bikara.“

„Auðvitað er ég stoltur af einstaklingsafrekum mínum en aðalatriðið er að vinna leiki með Juventus og Portúgal,“ bætti Ronaldo við.

Leikur Juventus og Lokomotiv er að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5 í kvöld. Útsending hefst klukkan 18.50 en Meistaradeildarmessan hefst 18.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×