Í morgun fór fram krýningarhátíð Naruhito Japanskeisara. Íslensku forsetahjónin, ásamt minnst hundrað og áttatíu þjóðarleiðtogum, voru viðstödd athöfnina. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir að það hafi verið forvitnilegt fyrir sig, ekki síst sem sagnfræðing, að fá að vera viðstaddur sögulegt augnablik þegar Naruhito tók við að föður sínum Akihito.
„Þetta gerist auðvitað ekki á hverjum degi þannig að athöfnin var mjög virðuleg og söguleg, skulum við segja. Naruhito, tekur við af Akihito föður sínum sem lifir enn í hárri elli en sagði af sér keisaratign í apríl. Keisarinn þar á undan, var afi núverandi keisara, Hirohito sem var keisari Japana lungann úr 20. öldinni þannig að þetta var virkilega söguleg stund og virðuleg, en látlaus um leið,“ segir Guðni sem staddur er í Tokyo.
Viðstaddir krýningarhátíðina voru minnst hundrað og áttatíu þjóðarleiðtogar, ýmist þjóðhöfðingjar eða fulltrúar landa sinna.
„Það er nú kvöld hér í Japan. Nú tekur við kvöldverður þar sem við Elísa konan mín, náum að heilsa upp á Japanskeisara og keisaraynju og færa þeim heillaóskir okkar og íslensku þjóðarinnar.“
Guðni segir að ýmis sóknarfæri séu fyrir hendi í eflingu viðskipta landanna tveggja. Íslensk stjórnvöld hafi lengi unnið að því að glæða áhuga Japana á fríverslunarsamningi.
„Það má hugsa ýmislegt hér í heimi viðskiptanna. Japanar hafa mikinn áhuga á íslenskri menningu, okkar bókmenntaarfi og ýmsum tengingum við Íslands, svo ekki sé minnst á ferðamennsku. Það er gott að geta lagt sitt af mörkum til tryggja og efla enn frekar samskipti ríkjanna.“
Valur
Stjarnan