Viðskipti innlent

„Við hefðum viljað ganga lengra“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Stórir samrunar hafa átt sér stað á smásölumarkaði á undanförnum árum.
Stórir samrunar hafa átt sér stað á smásölumarkaði á undanförnum árum. Vísir/vilhelm
Samkeppnislögin hér eru meira íþyngjandi en víðast hvar annars staðar í Evrópu og því eru þessar breytingar skref í rétta átt. Heilt yfir erum við jákvæð, en við hefðum viljað ganga lengra,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Markaðinn.

Heimild Samkeppniseftirlitsins til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla verður afnumin samkvæmt nýju frumvarpi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þar sem boðaðar eru miklar breytingar á samkeppnislöggjöfinni. Frumvarpið felur einnig í sér að það verði á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að meta hvort þau megi eiga í samstarfi. Þá verða veltumörk tilkynningarskyldra samruna hækkuð nokkuð frá því sem nú er.

Halldór segir að samkeppnislögin séu til staðar til að gæta hagsmuna almennings og minni fyrirtækja. Stærstur hluti aðildarfyrirtækja SA séu lítil og meðalstór fyrirtæki, og því láti samtökin sig hagsmuni þeirra varða.

„Stærsti hluti aðildarfyrirtækja SA eru lítil og meðalstór fyrirtæki þannig að við látum hagsmuni þeirra okkur varða. Lögin ættu að vera skýr og sambærileg því sem gerist í Evrópu. Þau þurfa að feta ákveðinn milliveg, því ef þau standa í vegi fyrir eðlilegri hagræðingu í atvinnulífinu þá mun það á endanum bitna á almenningi í hærra verðlagi. Eðli málsins samkvæmt eru allir markaðir á Íslandi litlir sem ætti að kalla á meiri sveigjanleika, ekki enn meira íþyngjandi reglur heldur en eru í samkeppnislöndum okkar.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.Vísir/vilhelm

Séríslenskt fyrirbæri

Spurður um málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins segir Halldór að íslensk stjórnsýsla sé þannig upp byggð að lægra sett stjórnvöld taki ákvarðanir sem borgarar geta kært til æðra settra stjórnvalda, annað hvort áfrýjunarnefnda eða ráðuneyta. Ef borgararnir sætti sig ekki við niðurstöðu æðra setta stjórnvaldsins geti þeir skotið málum sínum til dómstóla.

„Málskotsréttur Samkeppniseftirlitsins er séríslenskt fyrirbæri en það er eina stjórnvaldið á Íslandi sem hefur svona opna heimild til að skjóta málum æðra settra stjórnvalda til dómstóla. Auðvitað eiga lægra sett stjórnvöld að hlíta niðurstöðum æðra settra stjórnvalda og það er málsaðila að ákveða hvort þeir vilji skjóta málum til dómstóla,“ segir Halldór.

„Þessi málskotsréttur Sam­keppnis­eftirlitsins væri sambærilegur því að héraðsdómari gæti skotið niðurstöðu Landsréttar, sem hefði snúið niðurstöðu hans við, til Hæstaréttar.“



Hækkunin tímaskekkja

Eggert B. Ólafsson, sérfræðingur í samkeppnisrétti, nefnir að tveir af stærstu samrunum Íslandssögunnar hafi nýlega átt sér stað, og vísar þar til samruna Haga og Olís annars vegar og Festar og N1 hins vegar. Mikilvægt sé að samkeppnisyfirvöld haldi vöku sinni hvað varðar samþjöppun á mörkuðum sem stórir samrunar snerta.

„Mér sýnist að hækkun á veltuviðmiði samruna fyrir tilkynningarskyldu sé tímaskekkja í þessu ljósi. Það kemur líka fram í greinargerð með frumvarpinu að nýja viðmiðið sé ívið hærra en þau sem notast er við í Skandinavíu miðað við landsframleiðslu ríkjanna. Ég held að hið smáa íslenska hagkerfi og samtengda atvinnulíf með miklum persónulegum tengslum manna á milli þurfi á meira fremur en minna samrunaeftirliti að halda,“ segir Eggert.

Eggert B. Ólafsson, sérfræðingur í samkeppnisrétti.
Eggert telur að það sé óheillaspor að afnema málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins. Hins vegar megi takmarka heimildina þannig að hún taki aðeins til lagaatriða en ekki matskenndra atriða eins og skilgreiningar á markaðsráðandi stöðu.

„Ef málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins verður takmörkuð tel ég hættu á því að við sitjum árum saman uppi með skilgreiningar úrskurðaraðila á stjórnsýslustigi, þ.e. áfrýjunarnefndarinnar, á laga­atriðum eins og hvað telst ólögmætt samráð, hvenær EES-samningurinn eigi við eða hvað sé samkeppnishamlandi samningur,“ segir Eggert. Fordæmið fyrir atvinnulífið og neytendur verði þá úrskurður valdhafa á stjórnsýslustigi en ekki dómstóla.

„Það er oft miklum erfiðleikum bundið fyrir einstaklinga og lítil fyrir­tæki að sækja rétt sinn fyrir dómstólum vegna kostnaðar og hættu á að verða sett út af sakramentinu hjá markaðsráðandi fyrirtæki sem dómsmál varðar. Ég tel mjög mikilvægt að Samkeppniseftirlitið sem á að gæta hagsmuna neytenda í víðtækasta skilningi þess hugtaks geti fylgt málum eftir í gegnum allt dómskerfið þegar um mikilvæg atriði er að ræða,“ segir Eggert og nefnir Mjólkursamsölumálið því til stuðnings.

„Ef Samkeppniseftirlitið hefði ekki haft heimild til skjóta úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla í því máli er hætt við að staðan væri enn sú að keppinautar MS þyrftu að sæta því að fá hráefni til vinnslu mjólkurafurða á mun hærra verði en Mjólkursamsalan sjálf.“

Þá segist Eggert sakna þess að löggjöfin skuli ekki hafa nýtt tækifærið til að skerpa á rétti og möguleikum neytenda og fyrirtækja til að sækja sér skaðabætur til fyrirtækja sem brjóta samkeppnislög. Evrópusambandið samþykkti tilskipun þess efnis árið 2014 en hún sé ekki orðin hluti af EES-samninginum.

Gætu saknað lagalegrar vissu

Samkvæmt frumvarpinu verður sem áður segir á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að meta hvort þau megi eiga í samstarfi. Núgildandi lög kveða hins vegar á um að Samkeppniseftirlitið veiti undanþágu vegna samstarfs. Eggert telur ekki óeðlilegt að þessi leið sé afnumin.

„Ég hef í raun aldrei skilið af hverju þessu undanþáguferli var haldið inni í samkeppnislögum eftir svokallaða nútímavæðingu samkeppnisreglna ESB og EES. Annað mál er að ég er aðeins smeykur um að fyrirtæki séu ekki í stakk búin til að meta fullkomlega hvenær þau eru innan og hvenær þau eru utan bannsvæðis samkeppnisreglna þegar þau ráðast í samstarf með öðrum fyrirtækjum,“ segir Eggert.

„Eitt er víst að það er ekki verið að auka svigrúm fyrirtækja til samstarfs sem takmarkar viðskiptalegt sjálfstæði þátttakenda í samstarfinu eða sem fela í sér hættu á „samráðssmiti“ yfir á önnur starfssvið en samstarfið lýtur beinlínis að. Það kann líka að koma upp úr dúrnum að fyrirtæki sakni þeirrar lagalegu vissu sem undanþága Samkeppniseftirlitsins veitti.“


Tengdar fréttir

Á­frýjunar­heimild Sam­keppnis­eftir­litsins af­numin

Samkvæmt nýju frumvarpi ráðherra um breytingar á samkeppnislöggjöfinni verður það á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að meta hvort þau megi eiga í samstarfi. Heimild eftirlitsins um að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar til dómst

Eru fyrst og fremst að taka til

Ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boða aðgerðir til að einfalda regluverk. Binda vonir við að önnur ráðuneyti og sveitarfélög grípi til sömu aðgerða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×