Fótbolti

Ísland upp um eitt sæti á styrkleikalista FIFA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslendingar eiga tvo leiki eftir í undankeppni EM 2020.
Íslendingar eiga tvo leiki eftir í undankeppni EM 2020. vísir/vilhelm
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fer upp um eitt sæti á styrkleikalista FIFA og er í því fertugasta.

Íslendingar spiluðu tvo leiki í undankeppni EM 2020 fyrr í þessum mánuði. Ísland tapaði með minnsta mun fyrir heimsmeisturum Frakklands, 0-1, og vann svo Andorra, 2-0.

Ísland er þriðja besta Norðurlandaþjóðin samkvæmt styrkleikalistanum. Danmörk er í 14. sæti, fjórum sætum ofar en Svíþjóð. Norðmennirnir hans Lars Lagerbäck fara upp um tvö sæti og eru í því 45. Finnar eru tíu sætum neðar og Færeyingar eru í 110. sæti.

Íslendingar fóru niður um fimm sæti síðast þegar styrkleikalistinn var gefinn út og voru í 41. sæti hans. Íslenska liðið hefur hæst komist í 35. sæti listans á þessum ári.

Staða efstu fjögurra liða á listanum er óbreytt. Belgía er enn á toppnum, Frakkland í 2. sæti, Brasilía í því þriðja og England í því fjórða.

Tyrkir, næstu mótherjar Íslendinga í undankeppni EM, fara upp um fjögur sæti á listanum og eru í 32. sæti.

Moldóva, sem Ísland mætir í síðasta leik sínum í undankeppni EM, er í 175. sæti listans.

Liechtenstein, sem Helgi Kolviðsson þjálfar, er í 181. sæti listans.

Styrkleikalistann í heild sinni má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×