Innlent

Segir geðheilbrigðismál fólks með þroskahömlun í ólestri

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Geðheilbrigðismál fólks með þroskahömlun og einhverfu eru í ólestri að sögn formanns Þroskahjálpar. Dæmi séu um að fólki sé vísað frá geðdeild þar sem ekki sé hægt að sinna þeim. Þá sárvanti fíknimeðferð fyrir hópinn.

Fjallað var um fíkni- og geðheilbrigðisvanda fólks með þroskahömlun og einhverfu á ráðstefnu Landssamtakanna Þroskahjálpar í dag

„Þjónustan er bara ekki til, allavega innan hins opibera eigum við ekki sérhæfða þjónustu með þverfaglegri nálgun fyrir þennan hóp og það bara sárlega vantar,“ segir Dagur Bjarnason, geðlæknir á Landspítalanum.

„Þau eru bara í algjörum ólestri,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þrosahjálpar, og á við geðheilbrigðismál fólks með þroskahömlun eða fólk með einhverfu.

„Við erum með dæmi um það að fólk fer inn á geðdeild og er vísað frá því þeir segjast ekki geta sinnt viðkomandi því hann er með þroskahömlun,“ segir Bryndís.

Þá skili meðferð á geðdeild oft litlu sem engu fyrir hópinn þar sem hún sé ekki löguð að þeirra þörfum. Stórefla þurfi geðheilbrigðisþjónustu við fólk með þroskahömlun og tryggja því sérhæfða þjónustu sem tekur tillit til skerðinga þess meðal annars með því að laga upplýsingar sem því eru ætlaðar að þörfum þess. 

Dagur segir að hópurinn rekist á veggi út um allt. Það á erfitt með að komast að á göngudeild geðsviðs, það fær ekki þjónustu á heilsugæslunni,“ segir Dagur. 

Ekki er til íslensk tölfræði um hve margir falla í þennan hóp en Bryndís áætlar að hann gæti verið á bilinu hundrað til tvö hundruð. Þá kom fram í dag að einnig sé mikilvægt að tryggja fólki með þroskahömlun fíknimeðferð sem hentar þörfum þess. 

Í dag sé einungis í boði að fara almenn meðferðarúrræði við áfengis og fíknivanda. 

Fólk með þröskahömlun og einhverfu sem fer þarna inn skilur jafnvel ekki meðferðina sem er mjög flókin viðtalsmeðferð þannig það þarf að aðlaga hana og einfalda málið,“ segir Bryndís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×