Menning

Bókin varð til í heita pottinum

Steingerður Sonja Þórisdóttir skrifar
Árni les gjarnan með dóttur sinni en á heimilinu er það regla að aldrei skuli segja nei við góðri bók.
Árni les gjarnan með dóttur sinni en á heimilinu er það regla að aldrei skuli segja nei við góðri bók. Fréttablaðið/Ernir
Bókin Friðbergur forseti kom út fyrir viku og situr nú efst á lista yfir söluhæstu barnabækurnar þessa vikuna. Bókina skrifaði Árni með aðstoð dóttur sinnar Helenu, en hann hafði lengi langað til að skrifa barnabók.

Lét drauminn rætast

„Bókin fjallar um krakka, systkini og félaga þeirra. Þau rísa upp gegn óréttlæti þegar til stendur að vísa vinum þeirra og skólafélögum úr landi. Þau neita að gefast upp og ákveða að berjast gegn því. Í kjölfarið fara börn að hverfa. Í fyrstu lítur út fyrir hvörfin séu fyrir tilstilli hryðjuverkasamtaka. Söguhetjurnar dragast svo frekar inn í atburðarásina og úr verður mikil spenna og mikið gaman,“ segir Árni.

Bókin er fyrst og fremst skáldsaga fyrir börn, en Árni seldi auglýsingastofu sína að hluta til vegna þess að hann langaði að einbeita sér frekar að ritstörfum. Friðbergur forseti er hans fyrsta skáldsaga, en Árni stefnir á að halda ótrauður áfram.

„Það eru persónur í bókinni sem eru byggðar á fólki úr samfélaginu og í henni gerast hlutir sem eru skírskotun í atburði sem hafa gerst, vísanir í samtímann. Síðan er Friðbergur forseti, sem er búinn að taka sér hálfgert einræðisvald. Krakkarnir eru sem sagt að berjast gegn honum og hans ákvörðunum,“ segir Árni en hann vill meina að Friðbergur sé eins ólíkur Guðna Th., forseta Íslands, og mögulegt sé.

?Bókina er hægt að nálgast í öllum helstu bókabúðum.

Aldrei nei við bókum

Eins og áður kom fram skrifaði Árni bókina með aðstoð dóttur sinnar Helenu. Þau fara í sund saman í Vesturbæjarlaugina nánast daglega.

„Við sitjum oft í pottinum og erum að spjalla. Svo lesum við líka mikið saman. Mig langaði mikið til að skrifa barnabók og þá barnabók um hluti sem skipta máli. Mig langaði að skrifa bók fyrir stelpuna mína á meðan hún væri enn þá á þessum aldri. Ég fór að viðra þær hugmyndir og hún hjálpaði mér. Hún sagði mér til dæmis hvaða karaktera hana langaði að hafa í bókinni og hvað þeir ættu að heita. Saman í pottaspjalli þróuðum við söguna og þá atburði sem í henni gerast.“



Besta hugarleikfimin

Árni segist vera gríðarlega ánægður með viðtökurnar.

„Ég er rosalega glaður að fólk og krakkar hafi áhuga á að lesa hana. Þetta er hugsjónamál líka. Ég trúi því mjög einlæglega að aldrei komi of mikið út af barnabókum. Við höfum þá reglu heima hjá mér að segja aldrei nei við bókum. Ég held að lestur barna og það að foreldrar séu duglegir að lesa með börnunum sínum sé ein besta hugarleikfimi sem í boði er. Það er líka hvatinn að þessu öllu saman. En líka það að skrifa um hluti sem skipta máli, börn hafa skoðanir og skilja hluti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Viðburðir

Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.