Japanir búa sig nú undir að fellibylurinn Hagibis komi að ströndum landsins, en fellibylurinn er sá kraftmesti sem sést hefur í Japan í 60 ár. Gert er ráð fyrir að veðurofsinn skelli á landinu rétt fyrir utan Tókýó síðar í dag.
Þrátt fyrir að Hagibis hafi ekki enn náð landi er áhrifa fellibyljarins þegar farið að gæta í Japan og hefur ein manneskja látist vegna þeirra. Flóð eru viðvarandi á nokkrum svæðum í og við Tókýó og þúsundir heimila eru án rafmagns.
Í frétt á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að vindstyrkur Hagibis geti náð allt að 50 metrum á sekúndu. Veðurstofa Japans hefur varað við meiri flóðum og skriðufalli vegna veðurofsans.
Auk þess hafa japönsk yfirvöld ráðlagt fólki á þeim svæðum sem talin eru í hvað mestri hættu að yfirgefa heimili sín. Flug- og lestarferðum hefur verið aflýst og yfirvöld hafa opnað sérstakar viðbragðsstöðvar þar sem tekið verður á móti þeim sem hafa þurft að hverfa frá heimilum sínum. Eins hafa margar verslanir og verksmiðjur lokað í aðdraganda þess að fellibylurinn nái landi.
Íbúar svæðanna sem talið er að muni fara hvað verst út úr ofsaveðrinu hafa á síðustu dögum hamstrað birgðir, að ráði yfirvalda. Það er því fátt sem tekur á móti gestum stórmarkaða í og við Tókýó annað en tómar hillur.
Utanríkisráðuneyti Íslands sendi á fimmtudag frá sér tilkynningu vegna Hagibis þar sem íslenskum ríkisborgurum er ráðlagt að fylgjast vel með fréttum og vera vakandi fyrir nýjustu upplýsingum frá japönskum stjórnvöldum um framvindu mála.

