Fótbolti

Kepa nýtur samkeppninnar við De Gea - Hver byrjar í Osló?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hörð samkeppni
Hörð samkeppni vísir/getty
Stjörnum prýtt lið Spánverja getur tryggt sig inn á lokamót EM 2020 í kvöld þegar þeir heimsækja lærisveina Lars Lagerback í norska landsliðinu í Osló.

Spennandi verður að sjá hver mun verja mark Spánverja þar sem David De Gea, markvörður Man Utd, og Kepa Arrizabalaga, markvörður Chelsea, hafa háð harða baráttu um markmannsstöðuna í spænska landsliðinu undanfarið.

„Markmið mitt er að spila. Allir leikmennirnir í hópnum vilja vera í byrjunarliðinu og ég er fullur sjálfstrausts, tilbúinn að hjálpa liðinu. Ef ég verð einn af ellefu byrjunarliðsmönnum ætla ég að hjálpa liðinu að vinna leikinn og það verður ekki auðvelt gegn Norðmönnum,“ segir Kepa.

De Gea var af mörgum talinn besti markvörður heims fyrir þar til að halla fór undan fæti hjá honum, bæði með Man Utd og spænska landsliðinu. Á sama tíma hefur Kepa verið að taka stórstígum framförum og hefur Robert Moreno, landsliðsþjálfari Spánar, notað þá báða í riðlakeppninni til þessa þar sem Kepa hefur byrjað fjóra leiki en De Gea tvo.

„Það er alltaf jákvætt fyrir landsliðið ef það er samkeppni um stöður í byrjunarliðinu. Við höfum verið að skiptast á leikjum og ég verð að trúa á sjálfan mig.“

„Ég hugsa ekki um það sem er skrifað í blöðunum. Ég vill frekar láta verkin tala inn á vellinum,“ segir Kepa.

Leikur Noregs og Spánar hefst klukkan 18:45 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×