Fótbolti

Guðlaugur Victor: Ennþá hlutir sem ég þarf að læra

Smári Jökull Jónsson á Laugardalsvelli skrifar
Guðlaugur Victor í baráttunni í kvöld.
Guðlaugur Victor í baráttunni í kvöld. Vísir/Vilhelm
„Í heildina traust frammistaða. Ég var allt í lagi ánægður með Frakkaleikinn. Eins og ég sagði eftir þann leik þá voru nokkrir hlutir sem hefðu mátt fara betur," sagði Guðlaugur Victor Pálsson í samtali við Vísi eftir 2-0 sigurinn á Andorra á Laugardalsvelli í kvöld.

„Í dag var allt annar leikur þar sem við vissum að við myndum vera miklu meira með boltann og sækja meira. Mér fannst ég koma ágætlega út úr því. Við unnum leikinn og héldum núllinu svo það er jákvætt.“

Í ljósi jafntefli Frakka og Tyrkja í kvöld verður að teljast afar ólíklegt að Ísland nái öðru sætinu sem gefur beint sæti á Evrópumótið.

„Það var það og ekkert fagnað neitt,“ sagði Guðlaugur aðspurður hvort stemmningin hefði verið þung í klefanum eftir að leikmenn fengu fréttirnar af úrslitum leiksins í Frakklandi.

„Við þurfum bara að einbeita okkur að okkar leikjum og klára þá. Treysta svo á að Andorra stríði þeim í síðasta leik. Við þurfum bara að vona það besta,“ en miðað við frammistöðu Andorra í dag verða þeir ekki mikil fyrirstaða fyrir Tyrki í nóvember.

„Mikilvægast er að halda haus og ekki láta þá pirra sig. Við létum þá pirra okkur aðeins og hefðum ekkert átt að gera það. Við erum mikið betra fótboltalið og hefðum átt að einblína á okkur sjálfa. Þetta gengur og gerist og við unnum leikinn. Áfram gakk.“

Guðlaugur Victor lék í hægri bakvarðastöðunni í leikjunum tveimur gegn Frökkum á föstudag og Andorra í kvöld.

„Það eru enn hlutir sem ég þarf að læra en ég fékk tvö mjög ólíka leiki sem var gott uppá reynsluna að gera. Frakkaleikurinn var meira varnarsinnaður en í dag var þetta meira sóknarsinnað. Gott að fá smjörþefinn af hvoru tveggja og svo þarf ég að skoða einhverjar klippur til að læra betur á þetta. Ég er tiltölulega sáttur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×