Innlent

Afþakka jólatré númer 50 frá Noregi

Birna Dröfn Jónasdóttir skrifar
Tréð sem Garðabær fékk að gjöf í fyrra var fellt í garði íbúa í Asker.
Tréð sem Garðabær fékk að gjöf í fyrra var fellt í garði íbúa í Asker.
Samþykkt var í bæjarráði Garðabæjar í gær að afþakka jólatré frá vinabænum Asker í Noregi. Hefð var fyrir því síðastliðin 49 ár að Asker gæfi vinabæ sínum stórt og íburðarmikið jólatré sem staðið hefur á Garðatorgi.

„Við vorum búin að vera að velta þessu fyrir okkur lengi og þegar við vöktum máls á þessu við vini okkar í Asker voru þau búin að vera að velta þessu fyrir sér líka,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

„Svo var tekin sameiginlega ákvörðun um að ekki yrðu gefin fleiri tré út frá meðal annars breyttum áherslum í loftslagsmálum,“ bætir Gunnar við. Enginn hafi mótmælt á bæjarráðsfundinum.

„Þarna sparast flutningskostnaður og kolefnissporið minnkar, svo er þetta auðvitað táknrænt í umhverfismálum. Við höfum verið að leggja aukna áherslu á umhverfis­mál hér í bænum og erum að stíga öll þau skref sem hægt er að stíga í því sambandi hægt og bítandi því við viljum vera umhverfisvæn, það er engin spurning,“ segir Gunnar.

Bæjarstjórinn segir að þrátt fyrir að tréð hafi verið afþakkað verði að sjálfsögðu jólatré í bænum.

„Nú förum við bara á stúfana og finnum fallegt jólatré í Heiðmörk eða jafnvel í görðum bæjarbúa,“ segir hann. „Stundum hafa íbúar óskað eftir því að losna við grenitré úr garðinum sínum og það má vel vera að það dúkki eitthvað slíkt upp.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×