Umfjöllun: Keflavík - Njarðvík 88-84 | Keflavík vann grannaslaginn

Benedikt Grétarsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. VÍSIR/VILHELM
Montrétturinn suður með sjó tilheyrir Keflvíkingum næstu daga en Keflavík sigraði granna sína í Njarðvík 88-84 í lokaleik þriðju umferðar  Dominosdeildar karla í körfuknattleik. Keflavík hefur unnið alla þrjá leiki sína í Dominosdeildinni en Njarðvík hefur unnið einn leik.

Dominykas Milka skoraði 24 stig fyrir Keflavík og Wayne Martin skoraði 20 stig fyrir Njarðvík.

Fyrri hálfleikur var eign Keflvíkinga nánast frá upphafi til enda. Logi Gunnarsson byrjaði reyndar vel fyrir Njarðvík og skoraði 9 stig á stuttum tíma en það var það skársta sem gestirnir buðu upp á.

Heimamenn komu boltanum ítrekað á stóru leikmennina sína, sem áttu ekki í neinum vandræðum með að skora yfir lágvaxnari og aumari varnarmenn Njarðvíkinga. Þegar Njarðvíkingar náðu að standa örlítið í lappirnar niðri á blokkinni, komu Keflvíkingar boltanum á skyttur sínar og útkoman var yfirleitt góð karfa.

Keflavík var 14 stigum yfir að loknum fyrri hálfleik, 50-36 og í raun var það vel sloppið fyrir máttlausa Njarðvíkinga.

Njarðvík byrjaði ágætlega í seinni hálfleik og Wayne Martin vaknaði af værum blundi. Alltaf þegar maður hélt að Njarðvík væri að gera eitthvað alvöru áhlaup, stigu Keflvíkingar bara aftur á bensínið og héldu grönnum sínum í þægilegri fjarlægð. 15 stigu munaði fyrir lokaleikhlutann, 71-56.

Kristinn Pálsson var búinn að vera í miklum erfiðleikum sóknarlega fram að þessu en Kristinn mætti tilbúinn í upphafi fjórða leikhluta og undir hans forystu, minnkaði Njarðvík muninn í þrjú stig. Mario Matasovic lék einnig vel og barðist eins og ljón.

Keflvíkingar kláruðu hins vegar leikinn mjög skynsamlega og komu boltanum ítrekað á sína bestu leikmenn sem kláruðu dæmið. Williams og Milka gerðu það sem þeir gerðu það sem þeir voru búnir að gera allan leikinn og Njarðvík réð ekki við gæðin í þessum tveimur frábæru leikmönnum.

Lokatölur 88-84 og það verður að teljast sanngjarn sigur hjá Keflavík.

Af hverju vann Keflavík leikinn?

Keflavík er í augnablikinu með betra körfuboltalið en Njarðvík og þar ræður miklu að erlendir leikmenn liðsins eru miklu betri en kollegar þeirra hjá Njarðvík. Fyrri hálfleikur var líka bara of slakur hjá Njarðvík til að geta klárað endurkomu gegn jafn góðu liði og Keflavík er í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Allir atvinnumenn Keflavíkur skiluðu góðu framlagi. Dominykas Milka er tröll að burðum og skilaði 24 stigum og 11 fráköstum. Khalil Ahmad skoraði 19 stig en heilt yfir var Deane Williams besti maður liðsins með 20 stig og 13 fráköst.

Mario Matasovic var besti maður Njarðvíkur með 19 stig og 10 fráköst. Wayne Martin var afleitur í fyrri hálfleik en endaði með 20 stig og 10 fráköst eftir fínan seinni hálfleik.

Tölfræði sem vakti athygli

Erlendir atvinnumenn Keflavíkur skoruðu 63 stig af 88 stigum liðsins. Það eru 72% af skoruðum stigum Keflvíkinga og segir kannski mikið um uppbyggingu sóknarleiksins.

Hvað gerist næst?

Njarðvíkingar fara aftur á erfiðan útivöll og mæta Grindavík í öðrum Suðurnesjaslag. Keflavík gönnar hins vegar brautina og mætir Stjörnunni í Garðabæ.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira