Innlent

Ísfiskur þarf að mæta kröfum til að fá lán frá Byggðastofnun

Birgir Olgeirsson skrifar
Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks.
Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks.
Stjórn Byggðastofnunar hefur veitt Ísfiski jákvætt svar um lánaumsókn. Fiskvinnslan þarf þó að mæta ákveðnum kröfum innan tveggja vikna til að fá lánið. Bæjarstjórinn á Akranesi er vongóður að hægt verði að flytja starfsfólki jákvæðar fréttir í mánuðinum.

Öllu starfsmönnum Ísfisks, 42 talsins, var sagt upp störfum undir lok síðasta mánaðar. Strax bárust fregnir af því að bæjaryfirvöld hefðu leitað á náðir Byggðastofnunar til að tryggja fjármögnun svo halda megi starfseminni gangandi. Þungt hljóð var í bæjarbúum því atvinnuhorfur í bænum voru ekki taldar góðar.



Stjórn Byggðastofnunar tók beiðnina fyrir í gær þar sem tekið var jákvætt í hana. Til að fá lánið þarf Ísfiskur hins vegar að mæta kröfum sem stjórnin setur fyrirtækinu.

„Þetta eru ánægjulegar fréttir þessi fyrirgreiðsla er reyndar veitt með fyrirvara um að ákveðnum kröfum verði mætt. Ég er vongóður að þeim verði mætt á næstum tveimur vikum. Það stefnir vonandi bara í góð tíðindi í þessu,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.

Spurður hvort hægt verði að að endurráða alla þá starfsmenn sem misstu vinnuna fyrir rúmum tveimur vikum svarar bæjarstjórinn:

„Ég er vongóður um að það geti gengið eftir áður en þessi mánuður er liðinn að við verðum komin með góð tíðindi fyrir fólkið sem þarna hefur vinnu. Það er búið að vinna hörðum höndum að því og þetta skref er mikilvægt í þá átt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×