Erlent

Mótmælandi skotinn af lögreglu í Hong Kong

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar í Hong Kong hafa skotið mótmælanda og er það í fyrsta sinn sem slíkt gerist eftir margra mánaða mótmæli. Fimmtán manns eru sagðir hafa verið fluttir á sjúkrahús og er sá sem var skotinn er sagður í alvarlegu ástandi. Enn ein mótmælin hafa brotist út í Hong Kong á 70 afmæli Alþýðulýðveldisins í Kína og þykja þau umfangsmikil.

CNN segir embættismenn í Hong Kong hafa lengi haft áhyggjur af því að mótmælandi myndi láta lífið í átökum við lögreglu. Það þyki jafnvel kraftaverk að það hafi ekki gerst áður.

Til átaka hefur komið á milli mótmælenda og lögreglu í minnst níu hverfum borgarinnar þar sem mótmælendur kasta braki og eldsprengjum að lögreglu, sem svarað hefur með táragasi og háþrýstivatnsdælum.

Mótmælendur sem krefjast aukins lýðræðis hafa komið saman í fjóra mánuði og hafa reglulega leyst upp í ofbeldi þegar liðið hefur á daginn og á kvöldin. Búið er að loka almenningssamgöngum í Hong Kong en mótmælendur höfðu heitið því að nota afmælisdag Kína til að kalla eftir lýðræðisbótum eins og þeir hafa gert á undanförnum vikum.

Ein kona sem Reuters ræddi við sagði málið einfalt.

„Ég er ekki ung en ef við mótmælum ekki núna, munum við aldrei fá að tjá okkur aftur. Það er svo einfalt,“ sagði hún.

Hér má sjá myndband sem talið er sýna lögregluþjón skjóta mótmælanda í átökum þeirra á milli. Vert er að vara við myndbandinu.


Tengdar fréttir

Fagna sjö­tíu ára kommún­ista­­stjórn í dag

Yfirvöld í Kína minnast þess í dag að sjötíu ár eru liðin frá því kommúnistar komust til valda í landinu og er mikið um dýrðir í höfuðborginni Beijing í dag vegna þess.

Segja Kínverja pynta mótmælendur í Hong Kong

Í skýrslu sem samtökin Amnesty International birtu í gær segir að rannsókn hafi leitt í ljós að fólk sem hafi verið handtekið hafi verið pyntað í haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×