Innlent

Breyta gömlu bæjarskrifstofunum í íbúðir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rebekka og Ásmundur Einar við undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Rebekka og Ásmundur Einar við undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samvinnu við fjölgun nýrra íbúða í sveitarfélaginu.

Verkefnið sem ráðist verður í er að breyta gömlu bæjarskrifstofunum á Patreksfirði í hagkvæmar íbúðir. Gert er ráð fyrir að þannig megi fjölga leiguíbúðum um þrjár til fjórar á svæðinu, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Skrifstofur sveitarfélagsins voru fluttar í nýtt húsnæði fyrir ári og hafa gömlu skrifstofurnar staðið auðar síðan. Samhliða því hefur mikill skortur verið á íbúðarhúsnæði í Vesturbyggð.

Íbúðalánasjóður mun koma að útfærslu verkefnisins og hefur sjóðurinn ákveðið að leggja sveitarfélaginu til tveggja milljóna króna hönnunarstyrk. Þá mun sjóðurinn bjóða fram sérfræðiþekkingu starfsmanna sinna sem hluta af tilraunaverkefni sjóðsins til að örva húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Eins er stefnt að því að Íbúðalánasjóður fjármagni verkefnið í gegnum nýjan lánaflokk sjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×