Erlent

Brexit-tillaga Johnson ólíkleg til árangurs

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AP/Frank Augstein
Ný tillaga að Brexit-samkomulagi, sem Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að kynna í dag, virðist andvana fædd þar sem stjórnmálamenn á Írlandi hafa þegar hafnað henni. Helen McEntee, evrópumálaráðherra Írlands, segir að yfirvöld Írlands geti ekki samþykkt tillögu Johnson og dregur í efa að honum sé alvara varðandi það að ná samkomulagi.

Guardian hefur eftir írskum stjórnmálamönnum að tillagan brjóti þar að auki gegn breskum lögum varðandi bann við byggingu mannvirkja á landamærum Írlands og Norður-Írlands.



Tillaga Johnson verður lögð formlega fyrir forsvarsmenn Evrópusambandsins í dag og Johnson hefur gefið í skyn að þetta sé síðasti séns til að ná samkomulagi um úrgöngu Bretlands úr sambandinu.

Samkvæmt tillögunni mun Bretland fara úr sambandinu þann 31. október. Norður-Írland yrði áfram innan lagaramma ESB til 2025 en ekki innan innri markaðar sambandsins. Það fæli í sér tollaeftirlit við landamæri Norður-Írlands og Írlands frá og með 1. janúar 2021. Írar, sitthvoru megin við landamærin vilja hins vegar ekki sjá slíkar aðgerðir.

Sjá einnig: Segir tollaeftirlit á Írlandi óhjákvæmilegt á Írlandi eftir Brexit



Þing Bretlands samþykkti í síðasta mánuði lög sem segja til um það að ef enginn samningur náist fyrir 31. október, þurfi Johnson að biðja um frest á Brexit.

Johnson hélt í morgun ræðu á landsþingi Íhaldsflokksins þar sem hann gagnrýndi meðal annars þingið harðlega og sagði þingmenn ekki koma neinu í verk. Þeir hafi staðið í vegi Brexit. Þar sagði hann einnig að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið þann 31. október, sama hvað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×