Erlent

Norður-Kóreumenn staðfesta eldflaugaskotið

Gunnar Reynir Valþórsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Mynd af flauginni sem KCNA, ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu, birti í gær.
Mynd af flauginni sem KCNA, ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu, birti í gær. Vísir/EPA
Norður-Kóreumenn hafa staðfest að þeir hafi í gær skotið langdrægri eldflaug af skotpalli á hafi úti eins og Suður-Kóreumenn fullyrtu í gær. Norður-Kóreumenn segja að flauginni, sem getur borið kjarnavopn, sé hægt að skjóta úr kafbát.

Þetta þýðir að Norðanmenn gætu skotið kjarnorkueldlaugum á skotmörk í órafjarlægð, langt fyrir utan sín landamæri.

Í frétt KCNA, ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu, segir að flauginni hafi verið skotið lóðrétt á loft undan ströndum Wonsan-flóa í gær. Þá segir í fréttinni að skotið, sem hafi heppnast vel, muni koma til með að hafa mikla þýðingu fyrir varnir Norður-Kóreu gagnvart utanaðkomandi ógn sem steðji að ríkinu.

Þá sendi Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hamingjuóskir til þeirra sem stóðu að skotinu í gær. Þetta þykir benda til þess að leiðtoginn hafi ekki verið á vettvangi þegar flauginni var skotið á loft.

Málið er litið grafalvarlegum augum af vesturveldunum en viðræður Norður Kóreu og Bandaríkjanna eiga að hefjast um helgina þar sem ræða kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans.

Skotið hefur verið sett í samhengi við það að Suður-Kóreumenn fögnuðu í gær degi suðurkóreska hersins. Þar voru til sýnis nýkeyptar, bandarískar F-35 herþotur. Norður-Kóreumenn gagnrýndu kaupin á sínum tíma og sögðu til þess fallin að auka á spennuna.


Tengdar fréttir

Skutu eldflaug úr kafbáti

Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem einræðisríkið gerir tilraunir með slíkar eldflaugar og að þessu sinni var það gert nokkrum dögum áður en viðræður við Bandaríkin um kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlun ríkisins hefjast að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×