Erlent

Forsætisráðherra segir kröfur mótmælenda réttlátar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. AP/Khalid Mohammed
Fjölmörgum Írökum er nú nóg boðið vegna atvinnuleysis og spillingar í landinu. Írakar hafa mótmælt ástandinu í vikunni, einkum í kringum höfuðborginna Bagdad og á svæðum í suðurhluta landsins þar sem sjía-múslimar eru í meirihluta. Lögregla og öryggissveitir hafa fellt tuttugu mótmælendur hið minnsta og sært hundruð.

Muntazar Mahdi, ættingi látins mótmælenda, sagði við AP í dag að frændi hans hafi verið drepinn í Diwaniyeh. „Hann var að kalla eftir auknum réttindum. Hann var 23 ára gamall.“

Allsherjarútgöngubann var sett á í Bagdad í gær. Einungis er leyfilegt að ferðast til og frá alþjóðaflugvelli borgarinnar. Sjúkraflutningafólk og pílagrímar fá þó undanþágu. Sömuleiðis hafa verið settar takmarkanir við internetnotkun og hefur það gert mótmælendum erfiðara að skipuleggja mótmæli.

Það kom þó ekki í veg fyrir að þúsundir mótmælenda söfnuðust saman á Tahrir-torgi þar sem lögregla mætti þeim með táragas.

Adel Abdul-Mahdi, forsætisráðherra Íraks, sagði mikilvægt að koma á stöðugleika í landinu á ný. Það væri ekki auðvelt að taka ákvörðun um að setja á útgöngubann. „Kröfur ykkar um baráttu gegn spillingu, atvinnutækifæri og að ungmenni fái aðstoð eru réttmætar og áhyggjur ykkar eru þær sömu og okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×