Erlent

Myrti fyrr­verandi kærustu sína og fjöl­skyldu hennar

Sylvía Hall skrifar
Maðurinn gaf sig sjálfur fram við lögreglu.
Maðurinn gaf sig sjálfur fram við lögreglu. Vísir/Getty
Fimm eru látnir eftir að 25 ára gamall maður myrti fyrrverandi kærustu sína, fjölskyldu hennar og kærasta í bænum Kitzbühel í Austurríki í dag. Morðið var framið á heimili fjölskyldunnar.

Kitzbühel er vinsæll áfangastaður fyrir vetraríþróttafólk og er íbúafjöldi á níunda þúsund. Norski fjölmiðillinn VG hefur eftir staðarmiðlum að árásin hafi átt sér stað aðfaranótt sunnudags en maðurinn er nú í haldi lögreglu.

Maðurinn er sagður hafa keyrt að húsi fjölskyldunnar milli klukkan fjögur og fimm í nótt að staðartíma. Faðir stúlkunnar kom til dyra ásamt henni sjálfri þar sem þau áttu í deilum við manninn. Fjölskyldufaðirinn hafi því næst beðið hann um að yfirgefa svæðið sem hann gerði. Eftir að hafa yfirgefið heimili fjölskyldunnar fór hann heim og sótti skotvopn bróður síns.

Þegar árásarmaðurinn sneri aftur myrti hann foreldra stúlkunnar og 25 ára gamlan bróður hennar. Í framhaldinu braut hann sér leið inn í íbúð í húsinu þar sem stúlkan, sem er nítján ára gömul, var ásamt kærasta sínum og skaut þau til bana.

Á blaðamannafundi lögreglu sagði Walter Pupp, lögreglustjóri á svæðinu, að árásarmaðurinn hafi sjálfur gefið sig fram við lögreglu. Hann hafi lagt hníf á borðið og tilkynnt þeim að hann hafði myrt fimm manneskjur. Að sögn lögreglu var það ósætti milli mannsins og fyrrverandi kærustu hans sem leiddi til árásarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×