Innlent

„Erum við að fara að stofna nýjan flokk?“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki ætla að styðja frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem fjallar um bótagreiðslur í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki ætla að styðja frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem fjallar um bótagreiðslur í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Vísir/Vilhelm
„Mér sýnist svo stefni að ég og háttvirtur þingmaður Helga Vala Helgadóttir endum í sama flokki,“ sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, léttur í bragði í umræðum um frumvarp forsætisráðherra um bótagreiðslur í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Það er óhætt að segja að það er ekki oft sem að Brynjar og Helga Vala, sem er þingmaður Samfylkingarinnar, eru sammála, en í þessu máli eru þau sammála um það að geta ekki stutt frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Erum við að fara að stofna nýjan flokk?“ bætti Brynjar við.

Sjá einnig: „Landslið lögfræðinga” hafi skoðað bótagreiðslur í Guðmundar- og Geirfinnsmálum

Honum er grín þó ekki ofarlega í huga hvað snýr að umræddu frumvarpi sem Katrín Jakobsdóttir mælti fyrir í kvöld. „ Ég er mjög hugsi yfir tilgangi með þessu frumvarpi og þegar maður les greinargerðirnar með virðist tilgangurinn vera fyrst og fremst sá að sýna fram á vilja stjórnvalda og löggjafans um að greiða hinum sýknuðu og aðstandendum þeirra sanngjarnar bætur,“ sagði Brynjar.

„Þetta er raunverulega algjörlega með ólíkindum. Ég líta á alla þessa málsmeðferð sem bara aðför að dómsvaldinu í landinu, hvað sem okkur kann að finnast um það,“ bætti Brynjar við. Honum finnist meðferð málsins vera „fullkomið hneyksli,“ og hann geti alls ekki stutt frumvarpið.

Brynjar og Helga Vala, sem bæði eru lögmenn, eru þó ekki í einu og öllu sammála. „Það var áhugaverð ræðan hjá háttvirtum þingmanni Brynjari Níelssyni sem ég verð að játa að ég var að einhverju leyti sammála. Það er eiginlega alveg rosalegt. En ég er hreint ekki sammála öllu sem hann sagði,“ sagði Helga Vala. Hún sé aðeins sammála honum í því efni er lýtur að lagatæknilegum þáttum frumvarpsins og málatilbúnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×