Fótbolti

Southgate undirbýr leikmennina í að ganga af velli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gareth Southgate stýrir enska landsliðinu
Gareth Southgate stýrir enska landsliðinu vísir/getty
Gareth Southgate er búinn að undirbúa leikmenn sína fyrir það að ganga af velli ef þeir verða fyrir kynþáttaníði í komandi leikjum í undankeppni EM 2020.

UEFA er búið að gefa út aðgerðaáætlun fyrir það ef kynþáttaníð kemur upp. Fyrst á fyrirliðinn að láta dómarann vita. Þá á dómarinn að stöðva leikinnn og vallarkynnirinn að tilkynna áhorfendum að ef þetta komi fyrir aftur verði leikmennirnir teknir af velli.

Ef kynþáttaníðið heldur áfram þá á dómarinn að taka alla leikmennina af velli og ákveða svo hvort hætta þurfi leik alveg.

„Við verðum að vera undirbúnir undir þetta því stundum getur þetta gerst þegar við förum til annarra landa,“ sagði Fikayo Tomori við Sky Sports.

„Við erum bara þarna til þess að spila leikinn, við látum yfirvöld um að sjá um það sem gerist í stúkunni.“

Ensku leikmennirnir urðu fyrir kynþáttaníði þegar þeir spiluðu við Svartfellinga ytra í mars.

England mætir Búlgaríu og Tékklandi í þessum landsliðsglugga en búlgarskir stuðningsmenn gerðust sekir um kynþáttaníð á leikmönnum Englands árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×