Gagnrýni

Nýdönsk í Eldborgarsal: Pottþétt hljómsveit í fanta formi

Jakob Bjarnar skrifar
Björn Jörundur er ef til vill gegnheilasti töffari sem fram hefur komið í íslensku rokki. Sem er vel af sér vikið en margir eru um hituna.
Björn Jörundur er ef til vill gegnheilasti töffari sem fram hefur komið í íslensku rokki. Sem er vel af sér vikið en margir eru um hituna. gulli rögg
Þegar Jón Ólafsson steig fram á svið í uppklappinu, settist við hljómborð sitt og sló fyrstu hljómana í laginu Flugvélar hríslaðist sælublandinn hrollur um Eldborgarsal um helgina. Þar var þéttsetinn bekkurinn, salurinn pakkaður upp í rjáfur. Og mannskapurinn kyrjaði með af lífi og sál; kunni hvert orð textans. „Í fimm þúsund fetum ég kyssi þig, og býst svo til lendingar!“

Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar týndust fram á sviðið, bættust við og svo var talið í Hólmfríði Júlíusdóttur; lagið sem vakti eftirminnilega athygli á hljómsveitinni Nýdönsk þegar langt var liðið á 9. áratug síðustu aldar. Enda frábærlega vel gerður slagari, rokkaður og melódískur. Meðlimir þá bráðungir en kröfðust þess af mikilli einurð að þeir væru teknir alvarlega.

Salurinn allur kominn á fætur og trallaði með og tjúttaði.

Enda voru tónleikarnir uppbyggðir og fluttir af mikilli fagmennsku. Þarna fara menn sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Nýdönsk flutti sín þekktustu lög af virðingu fyrir lögum sínum af miklu öryggi og spilagleði. Hljómsveitin er í fantaformi sem er athyglisvert í ljósi þess að hún starfar til þess að gera slitrótt.



Erfitt að setja hljómsveitina á bás

Ég hef lengi verið einlægur aðdáandi hljómsveitarinnar og hefur einhvern veginn fundist Nýdönsk vanmetin. Sem er ekki nákvæmt orð yfir það sem ég vildi sagt hafa því það var ekki að sjá í Eldborg að fólk kynni ekki að meta hljómsveitina og það sem hún hefur fram að færa.

Þegar Jón Ólafsson sló fyrstu tónana í Flugvélum hríslaðist sælublandinn hrollur um skarann en Eldborg var pakkfull uppí rjáfur um helgina þegar Ný dönsk tróð þar upp.Gulli Rögg
Kannski er þessi vandræðagangur til kominn vegna þess hversu erfitt er að skilgreina Nýdönsk, erfitt að setja hana á einhvern tiltekinn bás. Hún er ekki ballhljómsveit en samt, hún er ekki bítlahljómsveit en samt, hún er ekki fyndin hljómsveit en samt... hnyttin, hún er ekki akústísk hljómsveit (Spilverkið) en samt; Nýdönsk er rokkhljómsveit en gæti samt allt eins talist diskóhljómsveit, þess vegna. Það vefst ekki fyrir Inga Skúlasyni, hinum flotta bassaleikara sem hefur spilað með hljómsveitinni lengi, að leiða Nýdanska út í fönkið ef svo ber undir en hann var á sínum tíma í hljómsveitinni Jagúar.

Hljómsveitin hefur starfað sundur og saman í leikhúsi og greina má söngleikjabrag í sumum laganna. Þarna ægir öllu saman en virkar.

Með öðrum orðum er erfitt að setja fingur á og við hvað skal miða? Meira að segja nafn hljómsveitarinnar er til vandræða. Hvernig á eiginlega að beygja þetta heiti? Eða öllu heldur, á að beygja? Er þetta skrifað Ný dönsk eða Nýdönsk? Hljómsveitin er eitt allsherjar ólíkindatól.



Einstaklega vel skipuð hljómsveit

Nýdönsk er alveg einstaklega vel skipuð. Það verður bara að segjast, þar er ekki veikur hlekkur. Frontarar hljómsveitarinnar eru auðvitað ekki af lakara taginu. Daníel Ágúst er einn besti söngvari sem fram hefur komið í íslenskri dægurtónlist og fóstbróðir hans Björn Jörundur einhver sá sérstæðasti. Björn er kannski gegnheilasti töffari sem komið hefur fram í íslensku tónlistarlífi. Og sýndi það á tónleikunum, til dæmis þegar hann greip í bassann í laginu Stundum, síðasta lagi fyrir hlé.

Hönnun lýsingar var vel heppnuð en hægur leikur var að sveifla sér úr baðstofustemmningu yfir í diskóstuð, ef svo bar undir.Gulli Rögg
Fyrri hluti tónleikanna var „sitjandi“ eins og þar stendur og minna rafmagn. Kassagítarar og einlægni sem fór þeim einkar vel. En, þá var rétt að gefa forsmekk að því sem yrði eftir hlé. Og ekki lítið hversu vel bassagítarinn fer Birni, í raun betur en gítarinn sem hann lék á í flestum laganna, bæði kassagítar og rafmagns. Ólafur Hólm, sem er einn besti trymbill landsins, er sá þriðji sem var í hljómsveitinni þá er hún kom fyrst fram.

En, það má heita til marks um hversu vel mönnuð hljómsveitin er að þegar Daníel Ágúst hætti um hríð og snéri sér að heimsfrægðinni með Gus Gus, lagði Nýdönsk ekki niður störf og vafðist þá ekki fyrir Birni Jörundi að syngja fyrir allan peninginn. Svo féllust menn auðvitað í faðma með tárum þegar Daníel Ágúst sneri aftur heim.

Djarfar hvítar buxur

Veruleg breyting varð á Nýdönsk árið 1990 þegar hljómsveitin vann að plötunni Regnbogalandi. Þá voru, sem fyrr segir, þeir Björn, Daníel Ágúst og Óli Hólm eftir. Þeir Jón Ólafsson og gítarleikarinn Stefán Hjörleifsson, sem saman mynduðu dúettinn Possibillies, höfðu aðstoðað við gerð plötunnar en gengu svo til liðs við hana.

Daníel Ágúst þenur raddböndin og Stefán, sem lagði allt undir með því að mæta í skjannahvítum buxum, spilar á gítar sinn af stakri snilld.Gulli Rögg
Þetta kom mörgum á óvart sem fylgdust vel með íslensku popp/rokk-senunni þá, því vissulega verða þeir að teljast af öðru tagi; ekki alveg eins einarðir í rokkinu og til dæmis þeir Daníel Ágúst og þá ekki síður Björn Jörundur. Og eldri. Ímynd þeirra félaga, sem voru saman í Verslunarskólanum ungir menn, er svo stillt og vel greidd að meira að segja fannst þeim sem þetta ritar Stefán helst til djarfur að vera í skjannahvítum buxum í fyrri hluta tónleikanna. En þetta small, smellur og gott betur.

Síðan hafa komið, með hléum, melódísk lög sem hafa límt sig í þjóðarvitundina.

Framlag þeirra til dægurmenningar Íslands er ótvírætt og ég vil ganga svo langt að telja Nýdönsk með fimm bestu hljómsveitum sem fram hafa komið á Íslandi. Er þá mikið sagt en þeir sýndu það og sönnuðu með sérdeilis frábærum tónleikum sínum um helgina. Þar skiptir kannski mestu máli að innan vébanda hljómsveitarinnar eru ótrúlega góðir lagasmiðir.



Vísindalega upp byggt

Hér neðar má sjá lagalistann eins og hann liggur fyrir. Eins og þeir sem þekkja lögin geta lesið í er þetta samanskrúfað af nánast vísindalegri nákvæmni manna sem vita upp á hár hvað þeir eru að gera. Í seinni hluta fyrri helmings kom strengjasveit á sviðið og tók þátt í flutningi fjögurra eða fimm laga. Auðvitað virkaði það eins og upp var lagt með. Hljómburðurinn í Hörpu svíkur ekki og Eldborgarsalurinn fór þeim félögum vel og strengjasveitinni vel.

Áður var það nefnt að hljómsveitin hafi verið í fanta formi en ef eitthvað er hægt að setja út á er það helst að þeir voru of öruggir með sig. Á löngum köflum var laglínan látin liggja á milli hluta og söngvararnir í að keppast við röddun. En, það kom ekki að sök því gestirnir kunnu sönginn.

Rokkstjarnan hugar að greiðslunni baksviðs í Hörpu.Gulli Rögg
Sem sagt, þessir tónleikar voru sérdeilis pottþéttir og góðir. Vert er að nefna lýsinguna en skásettir kastarabitar mynduðu fína umgjörð um tónleikana og var hægur leikur að sveifla leiknum úr baðstofustemmningu yfir í diskóstuð. Já, það verður eiginlega ekki hjá því komist að gefa svo gott sem fullt hús stiga fyrir þetta framtak. Hálf stjarna í mínus fyrir fumkennd vinnubrögð þegar skipt var yfir í C-kafla Hólmfríðar.

Hjálpaðu mér upp

Þá kemur þú

Alelda

Freistingar

Flauel

Landslag skýjanna

Allt

Félagslíf plantna

Hversdagsprins

Á plánetunni Jörð

Stundum

HLÉ

Diskó Berlín

Náttúran

Blómarósahafið

Nýr maður

Ilmur

Á sama tíma að ári

Klæddu þig

Hunang

Frelsið

Fram á nótt

Horfðu til himins

AUKALÖG:

Flugvélar

Hólmfríður Júlíusdóttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.