Erlent

Stefnir í flóknar viðræður í Austurríki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sebastian Kurz, leiðtogi austurríska Lýðflokksins, er óumdeildur sigurvegari þingkosninga sunnudagsins. Samt sem áður er útlit fyrir að hann muni eiga erfitt með að mynda ríkisstjórn eftir að samsteypustjórnin með popúlíska Frelsisflokknum sprakk vegna hneykslismáls.

Lýðflokkurinn fékk 73 þingsæti sem er nokkuð frá því að vera hreinn meirihluti. 92 sæti þarf til að mynda meirihluta og myndi því duga Kurz að mynda stjórn með Jafnaðarmannaflokknum, Frelsisflokknum eða Græningjum. Ekki er víst að það gangi upp.

Niðurstöður kosninga gærdagsins.
„Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni fyrir Sebastian Kurz, þar á meðal minnihlutastjórn eða jafnvel nýjar kosningar. Ef hann vill nýta þá möguleika þarf hann að fá almenning á sitt band og til þess að samþykkja að það sé hinum flokkunum að kenna,“ sagði Peter Hajek, austurrískur stjórnmálaskýrandi.

Alexander Van der Bellen forseti hefur boðað formenn flokka á sinn fund á miðviku- og föstudag. Þar verður væntanlega farið yfir stöðuna og verður Kurz veitt umboð til þess að mynda ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×