Lífið

Góð orka skiptir máli

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Monika er ekki bara tónlistar- og leiðsögumaður heldur líka friðarsinni hinn mesti.
Monika er ekki bara tónlistar- og leiðsögumaður heldur líka friðarsinni hinn mesti. Fréttablaðið/Ernir
Við byrjum í Kjarnanum í Mosfellsbæ klukkan 11 með sýningu sem nefnist Hvernig upplifa og túlka börnin frið í leik og starfi. Hún er eftir leikskólabörn í Kópavogi og bæjarfulltrúar þaðan og frá Mosfellsbæ opna hana. Okkur finnst mikilvægt að tengja kynslóðir og líka að bæjarfélög sameinist um að halda viðburð á þessum friðardegi. Það væri gaman að sjá sem flesta.“

Þannig lýsir Monika Abendroth upphafi dagskrár friðardagsins á morgun sem verður formlega opnuð í Þjóðminjasafninu klukkan 14. Þar taka meðal annars fjórar erlendar konur til máls. Þær eru staddar hér á friðarþingi og Monika tekur fram að þær tali ensku.

„Ein fjallar um að hver og einn þurfi að finna frið í eigin barmi, það hafi áhrif á næstu manneskju. Ein er Sami frá Norður-Noregi og talar svolítið um hvernig það er þegar meirihluti kúgar minnihluta, tvær frá Sviss sem hafa verið í flóttamannahjálp tala um hvernig það er að hafa flóttamenn sem nágranna. Svo komum við Palli fram líka, hann er svo elskulegur að taka þátt. Á eftir verður gengin friðarganga kringum Reykjavíkurtjörn.“

Hingað til lands eru komnar 22 konur frá fjórtán Evrópulöndum til að ræða saman, að sögn Moniku. „Þær eru í grasrótarhreyfingu sem kallast European Grandmother Council. Ekki allar ömmur en samt konur með reynslu. Tilgangur samtakanna er göfugur, konur vilja næra lífið og skapa jafnvægi í náttúrunni, meðan karlar leggja oft meira upp úr hagvexti og framkvæmdum, burtséð frá því hverjar afleiðingarnar verða.“

Samtökin Eruopean Grandmother Council voru stofnuð árið 2015 á Ítalíu, að sögn Moniku. „Ég var í heimsókn hjá systur minni og var spurð hvort ég vildi taka þátt, mig hafði einmitt langað að starfa á alþjóðavettvangi og þarna kom þetta til mín.

Við konurnar hittumst á níu mánaða fresti og fyrir utan stofnfundinn höfum við verið í Þýskalandi, Noregi, Ítalíu og Litháen. Þær sem bjóða heim gera það af frjálsum vilja og nú fannst mér ég vera tilbúin. Því eru þessar konur komnar til Íslands. Ég ákvað strax að hafa þema dagskrárinnar frið því við Íslendingar búum í herlausu landi og erum laus við vopnaframleiðslu. Valdi dagsetningu níu mánuði fram í tímann og það fallega gerðist að ég hitti einmitt á alþjóðlega friðardaginn. Þegar ég áttaði mig á því sat ég fyrir framan tölvuna og sagði bara takk, takk.“

Monika segir mörg spor og símtöl að baki við að skipuleggja þingið. „Þessar konur hafa ekki efni á að borga 100 þúsund fyrir gistingu í þrjár nætur en vinkona mín kom með þá frábæru hugmynd að fá inni í sumarbúðunum í Reykjadal. Það gekk og er alveg draumur, þar er allt til alls og peningurinn okkar fer beint í barnastarfið en ekki arðgreiðslur til hóteleigenda. Falleg hringrás. Eini gallinn er sá að ekki eru almenningssamgöngur á staðinn en það leysist.“

Á sunnudagsmorgun verður þakklætisathöfn í grennd við Krísuvík, nánar tiltekið við Bleikhól. „Það er komið að þeim hól rétt áður en komið er til Krýsuvíkur og það er skilti við veginn. Á Bleikhóli hefur verið ræktað upp risastórt grænt hjarta og framan við það ætlum við að bera fram þakklæti til móður jarðar fyrir hennar skilyrðislausu ást. Góð orka skiptir máli. Þegar ég fór að skoða staðinn með einni úr hópnum sáum við að það er fullt af litlum hjörtum á jörðinni, þegar að er gáð. Alveg ótrúlegt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×