Erlent

Fyrr­verandi for­seti Túnis er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ben Ali var hrakinn frá völdum í byltingunni árið 2011 sem markaði upphaf Arabíska vorsins svokallaða.
Ben Ali var hrakinn frá völdum í byltingunni árið 2011 sem markaði upphaf Arabíska vorsins svokallaða. epa
Zine al Abidine Ben Ali, fyrrverandi forseti Norður-Afríkuríkisins Túnis er látinn, 83 ára að aldri. Hann lést í Sádi-Arabíu í gær samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Ben Ali og fulltrúa utanríkisráðuneytis Túnis.

Ben Ali var hrakinn frá völdum og neyddist til að flýja land árið 2011 í kjölfar byltingarinnar í landinu sem markaði upphaf Arabíska vorsins svokallaða. Byltingin í Túnis hófst í raun í lok árs 2010 þegar ungur grænmetissölumaður, Mohamed Bouazizi, kveikti í sjálfum sér til að mótmæla miklu atvinnuleysi í landinu.

Í frétt BBC segir að Ben Ali hafi stýrt landinu í 23 ár. Valdatíð hans hafi einkennst af nokkrum stöðugleika og talsverðri efnahagslegri hagsæld, en forsetinn var þó harðlega gagnrýndur fyrir að spilling hafi grasserað í stjórnkerfinu og að trampað væri á frelsi íbúa landsins.

Dómstóll í Túnis dæmdi Ben Ali í 35 ára fangelsi í fjarveru hans fyrir fjárdrátt og spillingu árið 2011. Ári síðar hlaut hann lífstíðardóm vegna dauða mótmælenda árið 2011 og þá hlaut hann enn einn dóminn, 20 ár, fyrir að hafa hvatt til ofbeldis og morða í mótmælaöldunni 2011.

Lögmaður Ben Ali segir að útför forsetans fyrrverandi fari fram í Sádi-Arabíu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×