Erlent

Íranir gefa frat í yfirlýsingu leiðtoganna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Emmanuel Macron, Angela Merkel og Boris Johnson funduðu saman í New York, þar sem Loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna fer fram.
Emmanuel Macron, Angela Merkel og Boris Johnson funduðu saman í New York, þar sem Loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna fer fram. EPa/ HAYOUNG JEON
Íranir hafa hafnað sameiginlegri yfirlýsingu sem leiðtogar Frakklands, Þýskalands og Bretlands sendu frá sér í gærkvöldi. Þar tóku leiðtogarnir undir ásakanir Bandaríkjamanna um að Íranir hafi staðið á bak við árásina á olíuvinnslustöð Sáda á dögunum.

Evrópuleiðtogarnir, sem funduðu saman í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, segja enga aðra haldbæra skýringu á árásinni en þá að Íran hafi skipulagt hana, en Íranir hafa neitað því staðfastlega.

Þau Angela Merkel, Emmanuel Macron og Boris Johnson taka fram í yfirlýsingunni að ríkin ætli sér að standa áfram við kjarnorkusamkomulagið sem gert var við Íran 2015. Leiðtogarnir heita því aukinheldur að reyna að draga úr spennunni í Austurlöndum nær og hvetja Írani til að gera slíkt hið sama. 

Greinendum þykir hvatningin þó innantóm, enda aðeins örfáir dagar síðan Johnson sagðist ekki útiloka að Bretar myndu taka aðstoða Bandaríkjamenn við að styrkja varnir Sádi-Arabíu við Persaflóa - sem stjórnvöld í Teheran myndu túlku sem ögrun.

Íranir hafna enn sem fyrr ásökununum og segja Evrópuleiðtogana ekki gera annað en að herma eins og páfagaukar eftir Bandaríkjamönnum. „Ef Íran hefði staðið á bakvið árásina væri ekkert eftir af olíuvinnlustöðvunum,“ sagði utanríkisráðherra Írans í samtali við fjölmiðlafólk í New York.


Tengdar fréttir

„Allsherjarstríð“ geri Bandaríkin árásir á Íran

Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, segir að geri Sádi-Arabía eða Bandaríkin loftárásir á Íran verði afleiðing þess „allsherjarstríð“ og sagði að Sádar þyrftu að berjast til "síðasta bandaríska hermannsins“ ef af yrði.

Bandaríkin senda hermenn til Sádi-Arabíu

Bandaríkjastjórn hefur tilkynnt að hún hyggist senda bandaríska hermenn til Sádi-Arabíu eftir að drónaárás var gerð stærstu olíuvinnslustöð heimsins, fyrr í mánuðinum. Bandaríkin og Sádar saka stjórnvöld í Íran um að bera ábyrgð á árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×