Hvarf Anne-Elisabeth hefur vakið mikinn óhug í Noregi en ekkert hefur spurst til hennar síðan 31. október síðastliðinn. Norskum fjölmiðlum hefur verið tíðrætt um bréf sem mannræningjarnir skildu eftir á vettvangi, þar sem þeir kröfðust milljóna í lausnargjalds í órekjanlegri rafmynt og hótuðu því jafnframt að birta myndband af aftöku Anne-Elisabeth.
Sjá einnig: Telja að mannránið hafi verið sviðsett til að hylma yfir slóð morðingja
Í vikunni hafa fjölmiðlar aftur beint sjónum sínum að bréfinu en efni þess er þó ekki í eldlínunni í þetta sinn. Þannig greindi norska dagblaðið VG frá því á þriðjudag að lögregla hefði rannsakað pappírsörkina sjálfa sem skilaboð mannræningjanna til Toms Hagen, eiginmanns Anne-Elisabeth, eru rituð á.
Lögregla telur sig nú hafa rekið slóð pappírsins en hann er sagður keyptur í stórri, norskri ritfangakeðju. Ekki hefur þó enn fengið staðfest hvaða verslun um ræðir.

Lögregla segir rannsóknina nú einkum beinast að því að rekja slóð umslagsins, pappírsins og fleiri muna sem fundust á heimili Hagen-hjónanna, og fara yfir færslur í viðeigandi verslunum.
Enn er þó gengið út frá því að Anne-Elisabeth hafi verið myrt. Lögregla telur hverfandi líkur á því að Anne-Elisabeth sé á lífi, þrátt fyrir að mannræningjarnir haldi því fram í samskiptum við Hagen-fjölskylduna.