Formúla 1

Leclerc fyrsti Ferrari-ökuþórinn í 19 ár sem er fjórum sinnum á rásspól í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leclerc hefur alls sex sinnum hrósað sigri í tímatökunni á tímabilinu.
Leclerc hefur alls sex sinnum hrósað sigri í tímatökunni á tímabilinu. vísir/getty
Charles Leclerc á Ferrari varð hlutskarpastur í tímatökunni fyrir Rússlandskappaksturinn í dag. Hann verður því fremstur á ráslínu í fjórðu keppninni í röð.

Nítján ár eru síðan ökumaður Ferrari náði því að vera fremstur á ráslínu fjórum sinnum í röð á sama tímabili. Michael Schumacher afrekaði það tímabilið 2000.



Hinn 21 árs Leclerc hefur alls sex sinnum verið á ráslínu á sínu fyrsta tímabili hjá Ferrari. Aðeins Niki Lauda var oftar fremstur á ráslínu á fyrsta tímabili sínu hjá Ferrari. Hann var níu sinnum á rásspól tímabilið 1974.



Heimsmeistarinn Lewis Hamilton á Mercedes varð tæpri hálfri sekúndu á eftir Leclerc. Sebastian Vettel á Ferrari varð þriðji, Max Verstappen á Red Bull fjórði og Valteri Bottas á Mercedes, fimmti.

Hamilton er efstur í keppni ökuþóra um heimsmeistaratitilinn. Hann er með 296 stig, 65 stigum meira en Bottas sem er í 2. sætinu. Leclerc og Verstappen eru jafnir í 3. sæti, 96 stigum á eftir Hamilton þegar sjö umferðir eru eftir.

Bein útsending frá Rússlandskappakstrinum byrjar hefst á Stöð 2 Sport rétt fyrir klukkan 11:00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×