Almannavarnir Indónesíu segja að þrjátíu manns hafi farist í jarðskjálftanum sem reið yfir á fimmtudag. Hundruð bygginga skemmdust í jarðskjálftanum sem var 6,5 að stærð og tvö hundruð þúsund manns hafast enn við í neyðarskýlum.
Jarðskjálftinn olli usla í Malukueyjum í austanverðum Indónesíueyjaklasanum. Upphaflega var áætlað að tuttugu manns hefðu farist, margir þeirra þegar brak úr byggingum féll á þá. Um 150 manns til viðbótar slösuðust, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Fólk sem býr nærri sjónum forðaði sér lengra upp á land þrátt fyrir að yfirvöld hefðu útilokað að flóðbylgja skylli á eyjunni.
Fleiri en 4.000 manns fórust í jarðskjálfta upp á 7,5 og flóðbylgju sem gengu eyjuna Sulawesi, vestur af Maluku, fyrir ári.
