Fótbolti

Jón Daði: Öll þessi litlu móment verða mjög mikilvæg

Óskar Ófeigur Jónsson í Tirana skrifar
Jón Daði Böðvarsson,
Jón Daði Böðvarsson, Mynd/S2 Sport
Jón Daði Böðvarsson átti þátt í tveimur af þremur mörkum íslenska landsliðsins í sigrinum á Moldóvu um síðustu helgi og verður vonandi áfram á skotskónum á móti Albaníu í undankeppni EM 2020 í kvöld.

Jón Daði lagði upp fyrsta markið fyrir Kolbein Sigþórsson á laugardaginn og skoraði síðan það þriðja sjálfur sem var hans fyrsta landsliðsmark frá árinu 2016.

Leikurinn um helgina vannst sannfærandi en í kvöld eru strákarnir að fara að mæta liði sem þeir hafa spilað marga jafna leiki við.

„Þetta verður allt öðruvísi leikur og miklu sterkari lið held ég. Þeir eru erfiðir heim að sækja og við búumst við erfiðum leik,“ sagði Jón Daði Böðvarsson um muninn á leiknum við Moldóvu á laugardaginn og leiknum við Albaníu í kvöld.

„Þeir eru mjög líkamlega sterkir og agressífir. Þeir eru að vinna rosalega mikið af návígum og láta því finna vel fyrir sér. Þetta verður því mikil barátta og það verður stutt á milli í þessum leik. Öll þessi litlu móment verða því mjög mikilvæg og þetta getur ráðist á einu marki,“ sagði Jón Daði um Albanana.

Ísland er með tólf stig eins og Frakkland og Tyrkland. Það eru hins vegar bara tvö lið sem komast á EM og það má því ekkert klikka.

„Við erum búnir að upplifa það áður að vera í erfiðum riðli og með mikið af góðum liðum. Þetta er hnífjafnt og því stutt á milli. Þetta er því spurning um að taka einn leik í einu og nú er það Albanía,“ sagði Jón Daði.



Klippa: Jón Daði um Albaníuleikinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×