Fótbolti

Síðast löbbuðu strákarnir okkar í leikinn í Albaníu en nú bíður þeirra 45 mínútna rútuferð

Óskar Ófeigur Jónsson í Tirana skrifar
Það er enn verið að byggja nýjan þjóðarleikvang Albana í Tirana en íslenska landsliðið gistir við hlið hans.
Það er enn verið að byggja nýjan þjóðarleikvang Albana í Tirana en íslenska landsliðið gistir við hlið hans. Vísir/ÓskarÓ
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Albaníu í undankeppni EM 2020 í kvöld en leikurinn fer ekki fram í höfuðborginni heldur í þriðju stærstu borg landsins sem heitir Elbasan.

Íslenska landsliðið mætti Albönum síðast á útivelli í október 2012 en sá leikur var spilaður á Kombëtar Qemal Stafa leikvanginum í Tirana. Sá leikvangur er ekki til lengur og nýr þjóðarleikvangur er enn í byggingu á sama stað.

Þrátt fyrir að það sé búið að færa leikinn yfir til Elbasan þá gistir íslenska landsliðið samt á sama stað og það gerði fyrir tæpum sjö árum síðan.

Hótelið er á fínum stað eða við hlið þjóðarleikvangsins. Í október 2012 löbbuðu strákarnir frá hótelinu í leikinn en það bíður þeirra mun lengra ferðalag í kvöld.

Í stað þess að eyða aðeins örfáum mínútum og fáum skrefum frá hóteli á leikstað þarf íslenski hópurinn nú að ferðast í 45 mínútur í rútu í leikinn.

Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén var spurður út í þetta á blaðamannafundi í gær en vildi ekkert skammast yfir þessu heldur sagði bara að hann og lið hans myndu ekki leyfa sér að eyða orku í að svekkja sig yfir svona hlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×