Innlent

Laskaður eftir að hafa rekið upp í fjöru í Aðalvík

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björgunarmenn að störfum í Aðalvík í nótt.
Björgunarmenn að störfum í Aðalvík í nótt. Mynd/Landsbjörg
Björgunarskipin Kobbi Láka frá Bolungarvík og Gísli Jóns frá Ísafirði voru kölluð út í Aðalvík á Hornströndum í gærkvöldi vegna báts sem hafði rekið þar upp í fjöru. Báturinn er nokkuð laskaður eftir aðgerðina. Alls voru þrjú björgunarskip frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg voru kölluð út í gærkvöldi og í nótt.

Legufæri bátsins í Aðalvík hafði losnað fyrr um daginn og rak bátinn upp í fjöru. Þegar hann var dreginn á flot lagðist hann á hliðina og lak mikið af sjó um borð, að því er segir í tilkynningu. Dæla þurfti sjó úr bátnum áður en hægt var að draga hann til Ísafjarðar.

Sex voru í landi og voru mennirnir sóttir á léttbát og fluttir til Ísafjarðar. Klukkan 3 í nótt kom Gísli Jóns með fólkið og bátinn til hafnar á Ísafirði þar sem báturinn var hífður strax á land, nokkuð laskaður.

Mikill viðbúnar vegna strands við Langanes

Um miðnætti voru allar björgunarsveitir á Norðausturlandi, auk björgunarskipsins Sveinbjörns Sveinssonar frá Vopnafirði, kallaðar út vegna báts sem hafði strandað utan við Skála á sunnanverðu Langanesi með tvo menn voru um borð.

Sjá einnig: Þurftu að hífa úr meiri hæð en venju­lega vegna ná­lægðar við bjargið

Um klukkan tvö í nótt var björgunarsveitafólk komið á vettvang við bjargið fyrir ofan þar sem báturinn var strand og stuttu seinna kom björgunarbáturinn Jón Kr. sem hafði siglt frá Bakkafirði.

Hæglætisveður var á vettvangi og gott skyggni og gekk vel að hífa mennina um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar, þegar því var lokið var hægt að afurkalla viðbúnaðinn. Síðust hópar björgunarfólks voru komnir til síns heima rúmlega fimm í nótt.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá aðgerðum björgunarsveitanna í nótt.

Mynd/Landsbjörg
Mynd/landsbjörg
Mynd/Landsbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×