Fótbolti

Gylfi: Ekki búið fyrr en í nóvember

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var á skotskónum í kvöld er Ísland tapaði 4-2 fyrir Albaníu ytra. Gylfi segir þó að möguleiki Íslands á að komast á EM sé ekki farinn úr þeirra höndum.

„Gríðarleg vonbrigði. Mjög slakir heilt yfir, bæði varnar og sóknarlega. Það var lítið að gerast fram á við. Við áttum skot í fyrri hálfleik en Albanir voru betri og áttu þetta skilið,“ sagði Gylfi við Óskar Ófeig Jónsson í Albaníu.

Hvað var eiginlega í gangi í fyrri hálfleik?

„Við vorum í erfiðleikum með þriggja manna varnarlínuna og háu bakverðina. Við skorum snemma í síðari hálfleik og jöfnum í 2-2. Við kannski sækjum aðeins of mikið til að skora þriðja markið og þetta er opið hjá okkur. Við urðum að sækja þrjú stig en heilt yfir var þetta slakt.“

Íslenska liðið kom tvisvar til baka og segir Gylfi að liðið hafi viljað sækja stigin þrjú.

„Við áttum 30 mínútur eftir er staðan var 2-2 og við trúðum því að við værum að fara skora þriðja markið en þetta gengur ekki alltaf upp.“

„Við vissum að þetta yrði ekkert auðvelt. Þetta verður erfiðara núna en við höfum áður farið til Tyrklands og sótt í þrjú stig og viljum gera það aftur núna.“

Hafnfirðingurinn segir þó að möguleikinn á að komast á EM sé enn til staðar en næstu tveir leikir fara fram í næsta mánuði og riðillinn klárast svo í nóvember.

„Það eru fjórir leikir eftir og tólf stig. Það er nóg eftir. Við getum misstigið okkur eins og öll hin liðin. Þetta er ekki búið fyrr en í nóvember svo ef við förum til Tyrklands og náum í þrjú stig er allt opið,“ sagði Gylfi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×