Íslenski boltinn

Tindastóll á enn möguleika á að komast upp í Pepsi Max-deildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Laufey Harpa Halldórsdóttir og stöllur hennar eiga möguleika á að komast upp í Pepsi Max-deildina.
Laufey Harpa Halldórsdóttir og stöllur hennar eiga möguleika á að komast upp í Pepsi Max-deildina. MYND/FACEBOOK-SÍÐA TINDASTÓLS
Það ræðst í lokaumferð Inkasso-deildar kvenna eftir viku hvort FH eða Tindastóll fylgir Þrótti R. upp í Pepsi Max-deildina. Grindavík er hins vegar fallið niður í 2. deild og hefur farið niður um tvær deildir á jafn mörgum árum.

FH gerði 2-2 jafntefli við Augnablik í Kaplakrika í kvöld. Birta Georgsdóttir tryggði FH-ingum stig þegar hún jafnaði í 2-2 þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

FH, sem hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu þremur leikjum, er með tveggja stiga forskot á Tindastól sem vann botnlið ÍR, 0-4, í Mjóddinni. Þetta var fimmti sigur Stólanna í röð sem eiga möguleika á að komast upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins. Murielle Tiernan skoraði tvö mörk fyrir Tindastól í kvöld. Hún er markahæst í deildinni með 22 mörk.

Í lokaumferðinni 20. september sækir FH Aftureldingu heim á meðan Tindastóll fær ÍA í heimsókn. FH-ingum ætti að duga jafntefli til að tryggja sér sæti í Pepsi Max-deildinni þar sem markatala þeirra er miklu betri en Stólanna. FH er með 23 mörk í plús en Tindastóll ellefu.

Haukar sendu Grindavík niður í 2. deild með 0-2 sigri í leik liðanna suður með sjó. Grindvíkingar féllu úr Pepsi-deildinni í fyrra og eru núna fallnir úr Inkasso-deildinni.

Þetta var sjötti sigur Hauka í röð og sá níundi í síðustu tíu leikjum. Haukar eiga afar veika von um að komast upp í Pepsi Max-deildina. Til þess þurfa þeir að vinna ÍR-inga mjög stórt í lokaumferðinni og treysta á að FH tapi og Tindastóll vinni ekki.

Fjölnir vann topplið Þróttar, 3-1, í Grafarvoginum. Þetta fyrsta tap Þróttara síðan 5. júlí kom ekki að sök þar sem þeir eru búnir að vinna deildina. Fjölniskonur eru í 8. sæti með 19 stig.

Þá vann ÍA 2-0 sigur á Aftureldingu á Akranesi. Með sigrinum komust Skagakonur upp í 6. sæti deildarinnar.

Mosfellingar eru í 5. sætinu en þeir hafa aðeisn fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum sínum.

Úrslitin í kvöld:

FH 2-2 Augnablik

ÍR 0-4 Tindastóll

Grindavík 0-2 Haukar

Fjölnir 3-1 Þróttur R.

ÍA 2-0 Afturelding

Staðan í Inkasso-deild kvenna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×