Maðurinn sem lést við köfun í Eyjafirði í gær var erlendur ferðamaður. Tilkynning barst til lögreglu klukkan 14:00 í gær um köfunarslys við Hjalteyri en lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir voru kallaðar út. Þar að auki var varðskipið Týr nærri slysstað og kom til aðstoðar.
Ferðamaðurinn var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann var úrskurðaður látinn. Um var að ræða 64 ára gamlan bandarískan karlmann, fæddur 1955.
Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn málsins en samkvæmt upplýsingum þaðan var ferðamaðurinn í köfunarferða við hverastrýturnar, sem eru einstök náttúruundur fyrir miðjum Eyjafirði, um það bil miðja vegu á milli Víkurskarðs og Hjalteyrar.
Staðurinn var áður þekktur meðal sjómanna í Eyjafirði sem Hverinn, en í logni og sléttum sjó má greina uppstreymi frá þessu svæði.
Strýturnar á þessu svæði eru þrjár en þær rísa 33, 25 og 45 metra frá botni á um 65 metra dýpi.
Maðurinn sem lést hafði kafað að strýtunum í Eyjafirði
Birgir Olgeirsson skrifar
