Erlent

Frelsishetjan sem varð kúgari

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Arfleifð Mugabes er flókin.
Arfleifð Mugabes er flókin. AP/Ben Curtis
Ef lýsa á sögu sjálfstæðs Simbabve í tveimur orðum er nokkuð öruggt segja einfaldlega Robert Mugabe. Enda drottnaði hann yfir ríkinu í nærri fjóra áratugi. Fyrst sem forsætisráðherra frá því ríkið fékk sjálfstæði 1980 og til 1987 og í þrjátíu ár eftir það sem forseti allt þar til honum var loks steypt af stóli í nóvember 2017.

Þótt orðspor leiðtogans hafi beðið töluverða hnekki í seinni tíð minntust bæði margir Simbabvemenn og leiðtogar annarra Afríkuríkja Mugabes í gær fyrir verk hans í sjálfstæðisbaráttunni gegn nýlenduherrunum. Emmerson Mnangagwa, arftaki Mugabes, sagði hann til að mynda hafa helgað líf sitt frelsun Afríku.

En síga fór á ógæfuhliðina eftir því sem leið á valdatíð Mugabes. Þúsundir stuðningsmanna annarrar frelsishreyfingar en þeirrar sem Mugabe leiddi voru myrtar á níunda áratugnum, verðbólga varð á köflum svo mikil að verðlag tvöfaldaðist daglega, land var hrifsað af hvítum bændum með valdi um aldamótin og raddir stjórnarandstæðinga voru þaggaðar með grófu ofbeldi. Frelsari Simbabvemanna varð að kúgaranum.

„Sterkustu minningarnar eru um vonda stjórnarhætti, mannréttindabrot í landinu og algjört hrun innviða,“ sagði Nelson Chamisa, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, því um Mugabe.


Tengdar fréttir

Robert Mugabe er látinn

Robert Mugabe fyrrum forseti Zimbabve er látinn níutíu og fimm ára að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×