Dönsku meistararnir í Team Esbjerg með Rut Jónsdóttur innan borðs hófu nýtt tímabil í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta á sigri á Odense á útivelli.
Esbjerg tók yfirhöndina í upphafi og var yfir allan fyrri hálfleikinn. Staðan var 12-16 fyrir Esbjerg í hálfleik.
Gestirnir voru áfram yfir í seinni hálfleik en náðu þó ekki að hrista Odense almennilega af sér. Odense jafnaði leikinn í fyrsta sinn á 45. mínútu í 23-23 og náðu liðin ekki að skora þar til á 50. mínútu þegar Sanna Charlotte Solberg kom Esbjerg aftur yfir.
Svo fór að Esbjerg vann þriggja marka sigur 25-28. Rut skoraði tvö af mörkum Esbjerg úr tveimur skotum.
