Íslenski boltinn

Hlín tryggði Val sigur á bikarmeisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlín skoraði sitt þrettánda mark í Pepsi Max-deildinni í kvöld.
Hlín skoraði sitt þrettánda mark í Pepsi Max-deildinni í kvöld. vísir/bára
Valur er enn með tveggja stiga forystu á toppi Pepsi Max-deildar kvenna eftir 0-1 sigur á bikarmeisturum Selfoss á útivelli í kvöld. Valskonur hafa unnið alla sjö útileiki sína á tímabilinu.

Hlín Eiríksdóttir skoraði eina mark leiksins um miðjan seinni hálfleik. Hún er markahæst í deildinni ásamt samherja sínum hjá Val, Elínu Mettu Jensen. Þær hafa báðar skorað 13 mörk.

Þrátt fyrir að hafa spilað 120 mínútna bikarúrslitaleik á laugardaginn og vera án Hólmfríðar Magnúsdóttur var kraftur í Selfyssingum í leiknum í kvöld.

Heimakonur sluppu reyndar vel undir lok fyrri hálfleiks. Fyrst varði Kelsey Wys tvisvar í sömu sókninni og svo átti Ásgerður Stefanía Baldursdóttir skot í stöng. Staðan var markalaus í hálfleik.

Á 65. mínútu skoraði Hlín sigurmarkið með skoti á lofti eftir fyrirgjöf Hallberu Gísladóttur.

Skömmu fyrir leikslok fékk Anna María Bergþórsdóttir dauðafæri fyrir Selfoss en skaut yfir. Það reyndist síðasta tækifæri bikarmeistaranna sem urðu að sætta sig við tap.

Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 22 stig, tveimur stigum á eftir Þór/KA sem er í 3. sætinu.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×