Innlent

Full­yrða að endur­bætur á kísil­verk­smiðju í Helgu­vík muni draga veru­lega úr mengun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kísilverksmiðjan í Helguvík.
Kísilverksmiðjan í Helguvík. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
52 metra hár skorsteinn sem áætlað er að rísi við hlið síuhúss kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík á að draga verulega úr mengun frá verksmiðjunni í nærliggjandi íbúabyggð.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem fjölmiðlum barst í dag frá Stakksbergi. Í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn Vísis vegna þessa segir að málið sé ekki komið á þann stað að verið sé að vinna í starfsleyfismálum Stakksbergs.

Málið sé í ferli hjá Skipulagsstofnun og mun Stakksberg væntanlega leggja fram frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar. Að því búnu fari frummatsskýrslan í umsagnarferli, meðal annars til Umhverfisstofnunar.

Í tilkynningu Stakksbergs segir að það séu niðurstöður loftdreiflíkans verkfræðistofunnar Vatnaskila að endurbæturnar muni draga verulega úr mengun. Þá segir jafnframt að endurbæturnar séu í samræmi við skilyrði Umhverfisstofnunar þegar hún samþykkti úrbótaáætlun fyrir verksmiðjuna.

Undirbúningur, hönnun og útfærsla endurbótanna á kísilverksmiðjunni kostar 4,5 milljarða að því er segir í tilkynningunni.

Hafi vinnan miðast við úrbótaáætlunina sem Umhverfisstofnun samþykkti „með því skilyrði að uppsetning  skorsteins verði nánar útfærð og framkvæmd áður en endurræsing  yrði heimiluð og liggur tæknileg útfærsla nú fyrir.“

Útfærslan felurþað í sér að 52 metra hár skorsteinn, sem Stakkberg segir að rúmist innan gildandi deiliskipulag, verði reistur við hlið síuhúss verksmiðjunnar. Til samanburðar er turn Hallgrímskirkju 74,5 metra hár.

Að því er segir í tilkynningu Stakksbergs á að leiða allan útblástur frá verksmiðjunni í gegnum síuhús. Þar verður ryk síað frá áður en loftinu verður síðan blásið upp um skorsteininn.

„Með þessu hækkar útblástursopið um tæplega 21,5 metra auk þess að þrengjast verulega frá því sem áður var sem veldur verulegri aukningu í útblásturshraða. Þetta veldur því að styrkur mengunarefna þynnist út mun hraðar en áður,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að ítarleg skýrsla Vatnaskila um áhrif endurbótanna á loftgæði verður birt samhliða frummatsskýrslu umhverfismats kísilverksmiðjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×