Fótbolti

Rúnar: Ekki séð neina fingur á titlinum ennþá

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rúnar var nokkuð sáttur með úrslitin.
Rúnar var nokkuð sáttur með úrslitin. vísir/bára
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR,  var nokkuð sáttur með að fara heim með eitt stig í poka frá Akureyri eftir markalaust jafntefli KA og KR á Akureyrarvelli í dag. Hann sagði þó ljóst að skemmtanagildi leiksins hafi ekki verið hátt.

„Það var ekkert dauðafæri í þessum leik þannig að þetta var kannski 0-0 jafntefli eins og það gerist verst,“ sagði Rúnar eftir leik.

Hann var ósáttur við að sínir menn skyldu ekki grípa tækifærið og sækja meira á KA-menn sem lágu til baka í upphafi leiks.

„Við vorum ekki upp á okkar besta í dag, þrátt fyrir að hafa fengið svona eiginlega leikinn á silfurfati í byrjun.

Þeir lágu aftarlega og leyfðu okkur að koma upp með boltann. Tempó-ið í okkar leik datt niður strax. Við ætluðum að halda uppi hærra tempó-i en það var allt of lítið. Það var þannig gegnumgangandi í leiknum,“ sagði Rúnar.

KR-ingar eru með þægilega forystu á toppi deildarinnar og þegar skammt er eftir af deildinni er fátt sem bendir til annars en að KR-muni hampa Íslandsmeistaratitlinum. Rúnar var sáttur með stigið í þeirri vegferð.

„Við þurfum að ná í stig og það er gott að koma hingað og ná í eitt stig. Við hefðum viljað fá þrjú en KA-liðið er gott, sterkt fram á við. Það þarf að passa sig að hafa jafnvægi í þessu því að ef þú ferð með allt of marga fram þá refsa þeir þér og við vildum passa okkur á því að fá ekki eitt í andlitið þegar vorum komnir með allt of marga fram,“ sagði Rúnar.

Hann tók þó ekki undir að sínir menn væru svo gott sem orðnir Íslandsmeistarar.

„Ég hef ekki séð neina fingur á titlinum ennþá“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×